Akureyrarbær leiðir Arctic Mayors samstarfið

Akureyrarbær leiðir Arctic Mayors samstarfið

Bæjar- og borgarstjórar á Norðurslóðum undirrituðu á Akureyri í morgun samstarfsyfirlýsingu undir yfirskriftinni Arctic Mayors Forum. Þar með hafa samtök bæjar- og borgarstjóra á Norðurslóðum verið formlega stofnuð.

Vilja áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu

Þessi vettvangur verður einkum notaður til að miðla reynslu og þekkingu, greina sameiginlegar áskoranir og tækifæri með hagsmuni nærsamfélaga, fólksins á Norðurslóðum, að leiðarljósi. Markmiðið er að tryggja aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku um svæðið. Er þá bæði horft til ríkisstjórna og alþjóðlegra stofnana og samtaka, þar með talið að eignast áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu.

Ásthildur kjörin formaður

Að undirritun lokinni var haldinn fyrsti aðalfundur Arctic Mayors. Á fundinum var skipað í átta fulltrúa framkvæmdaráð og þriggja fulltrúa stjórn þar sem eiga sæti Ísland, Rússland og Noregur. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var á fundinum kjörin fyrsti formaður Arctic Mayors. Akureyrarbær leiðir þar af leiðandi samstarfið næstu tvö árin, samhliða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Sjálfbærni í fyrirrúmi

Ákveðið hefur verið að sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna verði rauður þráður í öllu starfi Arctic Mayors. Á aðalfundinum var rætt um helstu áherslumál og verkefni Arctic Mayors næstu tvö árin og var framkvæmdaráðinu falið að móta þau frekar.

Stofnaðilar Arctic Mayors eru 13 bæjar- og borgarstjórar frá átta löndum; Rússlandi, Finnlandi, Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Bandaríkjunum, Kanada og Noregi. Líklegt þykir að fleiri bætist í hópinn á næstu misserum.

UMMÆLI

Sambíó