Akureyrarbær styrkir Vísindaskóla unga fólksins

Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins og Eiríkur Björn bæjarstjóri undirrita samninginn. Mynd: Akureyri.is

Akureyrarbær og Háskólinn á Akureyri hafa skrifað undir samning um styrk bæjarins fyrir árið 2018 til Vísindaskóla unga fólksins sem verður haldinn í fjórða skiptið dagana 18.-22. júní.

Vísindaskólinn er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11-13 ára og í fyrsta sinn er nú hægt að nýta tómstundaávísun við greiðslu skólagjalda. Hámarksfjöldi nemenda er 80 og fer lausum plássum ört fækkandi.

Á hverju ári hefur verið boðið upp á ný þemu, sem gerir það að verkum að unga fólkið getur sótt skólann þrjú ár í röð og alltaf kynnst nýjum áherslum. Að þessu sinni eru yfirskriftir þemanna: Með lögum skal land byggja, Lífríkið í bænum, Skapandi hugsun, Vísindi heima í eldhúsi og úti á götu og FAB LAB smiðja.

Á bak við þessi heiti liggur fræðsla um hvernig lögreglan starfar og hvað lögreglumenn þurfa að kunna og í hverju þeir lenda í daglegu starfi. Nemendur rannsaka lífríkið á háskólasvæðinu og finna út úr því hve margar tegundir af plöntum, fléttum og dýrum eru á svæðinu. Þeir kynnast nýsköpun og finna út úr því hvernig hugmyndir verða að veruleika og svo munu þeir kynnast eðlis og efnafræði eldhússins og búa til eigið tilraunaeldhús. Einn daginn fara nemendur í FAB LAB Akureyri og læra á teikniforrit og hanna og skera út hluti í laserskurðarvél.

Skólinn byrjar kl. 9.00 á morgnana og stendur fram til kl. 15.00 og fá þátttakendur hádegismat í skólanum. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar geta sent fyrirspurnir á netfangið visindaskóli@unak.is eða hringja í Sigrúnu Vésteinsdóttur, verkefnastjóra í síma 460-8904.

Sjá einnig:

Styttist í Vísindaskóla unga fólksins


UMMÆLI

Sambíó