Prenthaus

Akureyri átt handboltalið í efstu deild síðustu 33 ár

Akureyri kveður Olís-deildina

Akureyri Handboltafélag er fallið úr Olís-deild karla eftir tap gegn Stjörnunni í kvöld.

Á næstu leiktíð verður því ekkert lið frá Akureyri í efstu deild karla í handbolta í fyrsta skipti í 33 ár eða síðan KA og Þór léku bæði í næstefstu deild veturinn 1984-1985. KA vann sér keppnisrétt í efstu deild á þeirri leiktíð og hélt sæti sínu þar alla daga eða þar til liðið sameinaðist Þór undir merkjum Akureyrar Handboltafélags sumarið 2006.

Þór hafði flakkað á milli efstu og næstefstu deildar í þónokkur ár þegar kom að sameiningunni árið 2006 en frá því að erkifjendurnir sameinuðust hefur Akureyri Handboltafélag leikið meðal þeirra bestu. Á því verður breyting á næstu leiktíð.

Umfjöllun Dags um Akureyrarslag 1985, síðast þegar Akureyri átti ekki úrvalsdeildarlið í handbolta.

Handboltabærinn Akureyri

Rík handboltahefð hefur orðið til á Akureyri í gegnum áratugina. Raunar er Akureyri brautryðjandi í íslenskum handbolta að mörgu leyti. Fyrsti opinberi kappleikur í handbolta fór fram þann 17.júní 1928 þegar KA lék við Aftureldingu, rétt um fimm mánuðum eftir stofnun KA.

Kvennahandboltinn var þó fyrirferðameiri á Akureyri fyrst um sinn og þegar hann var að ryðja sér til rúms átti Þór besta lið landsins. Árið 1941 var fyrsta Íslandsmót í handknattleik kvenna haldið utanhúss í Reykjavík og þar hrepptu Þórskonur gullið. Árið eftir var mótið haldið af Þór á Akureyri og sendi KA þá lið til leiks.

Í dag hafa fjölmargir Akureyringar atvinnu sína af því að leika handbolta á erlendri grundu. Þeirra á meðal eru landsliðsmennirnir Arnór Atlason, Arnór Þór Gunnarsson, og Guðmundur Hólmar Helgason auk Geirs Guðmundssonar, Atla Ævars Ingólfssonar, Odds Gretarssonar, Árna Þórs Sigtryggssonar og Sigtryggs Daða Rúnarssonar svo einhverjir séu nefndir. Þá eru tveir Akureyringar aðalþjálfarar í sterkustu handboltadeild heims þar sem þeir Alfreð Gíslason og Rúnar Sigtryggsson þjálfa í þýsku Bundesligunni.

Akureyri Handboltafélag deildarmeistari 2011. Sex árum síðar er liðið fallið úr deild þeirra bestu. Mynd: Þórir Tryggvason

Fyrir sex árum síðan hafði Akureyri Handboltafélag á að skipa einu besta liði landsins sem vann deildarkeppnina það árið auk þess að lenda í öðru sæti í bikar og úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil. Síðan þá hefur gengi liðsins hrakað allverulega. Liðið endaði í 3.sæti deildarkeppninar árið eftir en hefur ekki náð betri árangri en 6.sæti síðustu fimm keppnistímabil.

Í 1.deildinni hittir Akureyri Handboltafélag fyrir annað handboltalið frá Akureyri, Hamrana, sem sitja í næstneðsta sæti 1.deildarinnar þegar einni umferð er ólokið. Þá keppir ungmennalið Akureyrar einnig í 1.deildinni og situr í níunda sæti en ljóst er að Akureyri mun ekki hafa kost á að tefla fram ungmennaliði þar sem aðalliðið er mætt í 1.deildina.

UMMÆLI