Akureyri gerði jafntefli í Eyjum en gæti fallið í kvöld

Sverre Andreas Jakobsson er þjálfari Akureyrar.

Akureyri Handboltafélag hélt til Vestmannaeyja í kvöld þar sem liðið atti kappi við topplið Olís-deildar karla, ÍBV. Akureyri er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og það sást á liðinu í kvöld.

Akureyringar mættu virkilega ákveðnir til leiks og leiddu leikinn stærstan hluta fyrri hálfleiks, náðu mest fimm marka forystu um miðbik hálfleiksins. Staðan í leikhléi 9-12 fyrir Akureyri.

Eyjamenn komust í gang þegar á leið en þeir komust fyrst yfir þegar tólf mínútur lifðu leiks. Eftir spennandi lokamínútur lauk leiknum með jafntefli, 22-22 þar sem fyrirliðinn Andri Snær Stefánsson jafnaði á síðustu sekúndu leiksins.

Örlög Akureyrar eru nú í höndum Gróttu í kvöld því Seltirningar eiga leik gegn Stjörnunni sem er nýhafinn. Takist Stjörnunni að vinna leikinn eru Akureyringar fallnir úr deildinni.

Akureyri heimsækir svo Stjörnuna í lokaumferð deildarinnar. Ef Grótta vinnur eða gerir jafntefli í kvöld verður um hreinan úrslitaleik að ræða í Garðabæ um hvort liðið mun falla úr deildinni.

Uppfært – Grótta og Stjarnan skildu jöfn, 31-31. Það þýðir að Akureyri mætir Stjörnunni í hreinum úrslitaleik um 9.sæti deildarinnar, sem mun að öllum líkindum tryggja áframhaldandi veru í efstu deild, vegna fjölgunar.

Sambíó

UMMÆLI