Gæludýr.is

Akureyringar björguðu áhöfn Geysis

Akureyringar björguðu áhöfn Geysis

Á nýliðnu ári voru 70 ár liðin frá stofnun Flugbjörgunarsveitarinnar. Tilefni stofnunarinnar var brotlending millilandaflugvélarinnar Geysis á Vatnajökli fimmtudaginn 14. september árið 1950 á leið sinni frá Luxemborg til Reykjavíkur. Flugvélin var týnd í nokkra daga. Leit var gerð að vélinni og áhöfn hennar úr lofti, á sjó og á landi. Leitin bar árangur síðdegis mánudaginn 18. september þegar flakið fannst sem og áhöfnin þar sem blessunarlega komust allir lífs af. Samdægurs var björgunarleiðangur gerður út frá Akureyri til að koma áhöfninni heillri á húfi til byggða. Ritstjóri Dags á þeim tíma, Haukur Snorrason, fékk að fljóta með. Á meðan tveggja daga leiðangrinum stóð á öræfum Íslands skráði hann ferðasögu sína, Hún birtist í blaðinu þann 24. september undir yfirskriftinni Akureyringar björguðu áhöfn „Geysis“ af Vatnajökli. Í undirtitli var eftirfarandi ritað: Sameiginlegur leiðangur Akureyringa og Reykvíkinga gekk lengri skíðadagleið á jöklinum en áður hefur verið farin á jöklum á Íslandi. Sagnalist rifjar hér upp samtímafrásögn Hauks af einhverjum umtalaðasta atburði Íslandssögunnar á 20. öld.

„Fréttin um að Geysir væri fundinn og áhöfnin á lífi, fór eins og logi yfir akur um þennan bæ sl. mánudag. Var hún sönn, eða var hún óstaðfest flugufregn? Svarið var skjótfengið. Akureyrarradíó, sem að jafnaði hefur talsamband við flugvélar þær, er hingað sækja, staðfesti fréttina þegar. Fjöldi manna safnaðist saman við skrifstofu Flugfélag Íslands, til þess að leita frétta. En þar var lítill tími til að svara spurningum forvitinna bæjarmanna. Þar var þegar byrjað að skipuleggja leiðangur þann, sem bjargaði áhöfn Geysis af jöklinum tveimur dögum síðar. Þegar ég kom á skrifstofu Flugfélagsins um sex leytið á mánudagskvöldið, var skipulagning leiðangursins þegar hafin og þremur stundum síðar voru leiðangursmenn á leið til jökulsins á bifreiðum, með allan nauðsynlegan útbúnað meðferðis. Var engum tíma eytt til ónýtis eftir að ákveðið var að freista þess að aka að jökulröndinni héðan og ganga á jökulinn.

Það var Kristinn Jónsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins hér á staðnum, sem undirbjó förina héðan fyrir hönd flugmálastjórnarinnar, en fararstjóri og foringi leiðangursmanna var þar ákveðinn Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Akureyrar, kunnur ferðamaður og þaulkunnugur í óbyggðum. Þegar ég kom á Flugfélagsskrifstofuna stóð ráðstefna þeirra Kristins og Þorsteins sem hæst. Þorsteinn var þess fús að veita leiðangrinum forstöðu og hann lagði og á ráðin um það, hversu fjölmennur hann skyldi verða og til hverra skyldi leitað. Innan lítillar stundar var listi yfir leiðangursmenn tilbúinn, jeppabifreiðar ráðnar til ferðarinnar og farartími ákveðinn. Var það fámennur hópur en flestir kunnir áræði, dugnaði og útsjónarsemi og svo nokkrir minni spámenn. Ég hafði vonað að komast í þeirri hóp. En þegar var fullskipað í bílana og ekkert rúm fyrir forvitinn blaðamann, sem vafalaust mundi aðeins verða til trafala. Ég horfi spurnaraugum á Kristinn Jónsson. Er engin von um að komast með? Tveir símar hringja í einu, en Kristinn getur ekki svarað nema öðrum. Ég svara hinum. Þar er fyrir Kristján P. Guðmundsson útgerðarmaður. Hann vill tala við Kristinn og bjóða jeppabíl sinn til fararinnar. Boðið er vel þegið, en þegar ráðnir nægilega margir bílar, hins vegar gott að eiga hann að, ef einhver heltist úr lestinni. Þarna er tækifærið! — Hvernig væri það, Kristján, að við gerðumst nokkurs konar skuggar leiðangursins, á þínum bíl; lofuðum því að verða ekki til trafala, en reyndum að hjálpa eftir mætti? Spurningunni er svarað játandi eftir andartaks umhugsun og samþykki leiðangursstjórans fæst þegar. Þar með erum við Kristján ráðnir til Vatnajökulsferðarinnar með sérstökum kjörum. Fór svo giftusamlega, að við gátum staðið við allar okkar skuldbindingar. Urðum ekki fyrir neinum, en reyndum að aðstoða eftir mætti. Þegar þessum fyrsta undirbúningi var lokið, voru tveir tímar til stefnu. Á þeim tíma þurfti að útbúa nesti, fatnað, tjöld, hitunartæki, skíði og sitt hvað fleira, sem nauðsynlegt er að hafa með til óbyggðaferða. Hinir eiginlegu leiðangursmenn voru þá þegar teknir að undirbúa sína för, og komust þeir allir af stað á tilsettum tíma. Við urðum nokkuð síðbúnari, en það kom ekki að sök. Leiðangursmenn höfðu enn ekki lokið ágætri máltíð að Reykjahlíð um miðnæti á mánudagskvöldið, þegar jeppinn hans Kristjáns þeysti í hlaðið, hlaðinn ýmsum búnaði og með einn aukafarþega, sem réðist til ferðarinnar með sömu kjörum og við, Edvard Sigurgeirsson ljósmyndari. Var þar með lokið sérstöðu okkar, því að okkur var ágæta vel fagnað í Reykjahlíð og urðum við brátt óaðskiljanlegur hluti leiðangursins, tilbúnir í allt, en jafnan undir forsjá fararstjórans, og fúsir að hlýta hans fyrirsögn í hvívetna. Þarna í Reykjahlíð sáum við fyrst, hvaða garpar voru ráðnir til ferðarinnar. Voru hinir eiginlegu leiðangursmenn héðan 13. Reyndist það ekki óhappatala og er þar með enn einu sinni hrundið þeirri bábilju, að gifta fylgi ekki þeirri tölu. Þar að auki vorum við þrír, fyrrnefndir, aukamenn. En auk þessara 16 manna voru þarna komnir 8 vaskir Reykvíkingar á fjórum jeppana. Voru jepparnir þá alls níu og þar að auki stór vöruflutningabifreið með ýmsan útbúnað, aðallega benzín fyrir jeppana, skíði leiðangursmanna og ýmsan annan farangur.“

Upprifjun Sagnalistar á ítarlegri frásögn Hauks Snorrasonar má lesa í heild sinni á sagnalist.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó