Vinna og vélar

Akureyringar orðnir 18.500

Akureyringar orðnir 18.500

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar heimsóttu í dag fjölskyldu í Sólvallagötu á Akureyri til að heiðra þann íbúa bæjarins sem telst vera númer 18.500 í röðinni. Hann er lítill drengur sem kom í heiminn 4. janúar síðastliðinn.

Strákurinn sem fær nafn í febrúar er sonur Freyju Hólm Ármannsdóttur og Kolbeins Hjaltasonar. Fyrir eiga þau heimasætuna og systurina Kolbrá sem er á öðru ári. Hún var hjá dagmömmu þegar gestina bar að garði. Snáðinn var leystur út með gjöfum en foreldrarnir fengu blóm og stóra systir dálítinn pakka.

Eiríkur Björn færði drengnum og fjölskyldu hans árnaðaróskir og sagði um leið að það væri skemmtilegur siður að fagna því þegar íbúafjöldinn ykist um heilt eða hálft þúsund. Fjölgun væri ávallt til marks um það hér vilji ungt fólk setjast að og jafnframt ánægjuleg áminning um að samfélagið okkar vex og dafnar. Átjánþúsundasti íbúinn var heiðraður með svipuðum hætti fyrir þremur árum.

UMMÆLI