Prenthaus

Akureyringum gert að snyrta lóðir sínar

Akureyringum gert að snyrta lóðir sínar

Íbúar á Akureyri geta átt von á því að gróður verði fjarlægður af lóðum þeirra á þeirra kostnað ef þeir hafa ekki lokið snyrtingu gróðurs fyrir 15. september. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Þar segir að byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar og forstöðumaður umhverfismála vilji minna íbúa á að snyrta gróður á lóðamörkum. Nauðsynlegt sé að bregðast við þar sem gróðurinn nái út fyrir lóðamörk að götum, gangstéttum og stígum og valdi óþægindum fyrir gangandi vegfarendur, umferð ökutækja eða skyggi á umferðaskilti og götumerkingar. 

„Skólarnir eru byrjaðir með aukinni umferð gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda. Miklu máli skiptir að allir sjáist í umferðinni og geti gengið óhindrað á gangstéttum, ekki síst yngstu skólabörnin sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni. Mikill trjágróður getur einnig tafið snjómokstur og valdið skemmdum á tækjum sem eru notuð til að þjónusta bæjarbúa,“ segir á vef bæjarins.

Þar kemur fram að hæð undir gróður við gangstéttir skuli ekki vera minni en 2,8 metrar og 4,5 metrar við akbraut. 

„Snyrtingu gróðurs skal lokið fyrir 15. september, en að þeim tíma liðnum má búast við því að gróður verði fjarlægður á kostnað lóðarhafa.“

UMMÆLI