Akureyrskt ungskáld fær skrif sín birt hjá Pastel ritröð

Akureyrskt ungskáld fær skrif sín birt hjá Pastel ritröð

Þegar fréttaritari settist niður með Þorbjörgu Þóroddsdóttur var ætlunin að taka við hana örstutt viðtal, kannski fimm til tíu mínútur. Hún var nýverið að skrifa undir samstarfssamning við Pastel ritröð og mun því fá skrif sín birt í takmörkuðu upplagi í vor. Áætlað var að eiga við hana stutt spjall um það og um skáldskapinn almennt. 

Þau plön fóru hins vegar afskaplega fljótt út um gluggann og dottið var á hálftíma langt spjall um íslenska pólitík og málnotkun, loftslagsmál og írska sjálfstæðisbaráttu, svo fátt eitt sé nefnt.

Kannski var ekki við öðru að búast, því Þorbjörg er auðvitað rithöfundur sem þrátt fyrir ungan aldur hefur þegar unnið til ýmissa verðlauna fyrir hugleiðingar sínar. Meðal annars lenti hún nýlega í bæði öðru og þriðja sæti í ritlistarkeppni Ungskálda á Akureyri 2023 fyrir verk sín um tíma og rúm og íslenskt mál. Eitt af því sem heillar Þorbjörgu við að skrifa er nefnilega íslenskan sjálf, en hún segist hafa afskaplega gaman af því að leika sér með fallbeygingu og málfræði.

Hefur skrifað frá unga aldri

Að skrifa og skapa almennt er ekki nýtt áhugamál fyrir Þorbjörgu, en hún segist frá unga aldri hafa skrifað smásögur og reynt að skemmta jafnöldrum sínum með ýmis skáldskapi. Hún rifjar upp þegar hún fór í fótboltaferðalög sem barn, en meðan aðrir hugsuðu um næsta leik sat hún í rútunni og samdi draugasögur til að segja liðsfélögunum um kvöldið. Þar að auki er móðir Þorbjargar barnabókahöfundur og var því mikið notuð sem prufu-lesari fyrir móður sína og komst þannig snemma í kynni við ritlistina.

Aktívisti og manneskja

Þorbjörg er uppalin á Akureyri, en hún fékk þó dýrmæta innsýn í aðra menningarheima, fyrst þegar fjölskyldan flutti tímabundið til Newcastle í Englandi og síðan aftur tímabundið til Cork á Írlandi.

Þorbjörg segir þá mánuði sem hún bjó á Írlandi vegna vinnu foreldra sinna hafa haft sérstaklega mikil áhrif á hana. Hún flutti til Írlands um þrettán ára gömul og komst þar í kynni við jafnaldra sem voru miklir stuðningsmenn írska lýðveldishersins og írskrar sjálfstæðisbaráttu almennt. Að vera í kringum svo róttæka stjórnmálamenningu segir Þorbjörg hafa haft töluverð áhrif á sig og vakið hjá henni mikinn áhuga á stjórnmálum og aktivisma, en hún hefur alla daga síðan og þar til nýlega verið virk á því sviði. 

Þorbjörg hefur staðið fyrir aktívisma yfir ýmsum málefnum og fyrir ýmsa flokka, en helsta áherslu hefur hún lagt á loftslagsmál. Þegar hún var í grunnskóla skipulagði Þorbjörg loftslagsverkföll að hætti Gretu Thunberg. Í heilt ár sat hún á Ráðhústorginu eftir hádegi alla föstudaga og sat þar yfirleitt alein. Hún lýsir því að hafa upplifað mikinn loftslagskvíða á þessum aldri, sem ekki lagaðist við það að sitja ein á torginu, en hún segir það hafa ýtt undir þá tilfinningu að afskaplega fáir væru að taka loftslagsmálum eins alvarlega og þau ættu skilið, sem leiddi til ákveðins vonleysis: “Mér fannst ég ekki geta gert neitt, ég var bara einhver krakki á Akureyri sem hafði engin áhrif og mér fannst bara að öllum væri sama um þetta”

Loftslagskvíðinn er að miklu leyti liðinn hjá, en ekki vegna þess að hún sé endilega bjartsýnari í þeim málum. Þorbjörg segir að þegar hún hafi verið hvað virkust í loftslagsverkföllum hafi það heltekið líf hennar og verið á huga hennar frá morgni til kvölds. Að lokum hafi hún þurft að fjarlægja sig aðeins frá málefninu til þess að verja andlega heilsu sína: 

“Það eru minni líkur á því að þú getir haft raunveruleg áhrif ef þú ert alltaf í einhverju kvíðakasti yfir því að við munum öll deyja, þannig ég held ég hafi bara mjög viljandi dregið mig frá því svo ég gæti verið manneskja en ekki bara aktivisti.”

Stíllinn frá Borges, umfjöllunarefnið frá Vonnegut

Nú fyrir áramót var ekki fyrsta skiptið sem skrif hennar unnu til verðlauna, en 2021 hneppti hún bronsið í sömu keppni, fyrir texta sem í hennar eigin orðum fjallaði um “mandarínur og David Bowie og kirkjugarða og eitthvað svoleiðis.” Þessi lýsing gefur lesendum ágæta vísbendingu um eðli verka Þorbjargar, en hún gengur fúslega að því að skrif hennar beri vott af absúrdisma. Þykir henni sérstaklega athyglisvert að kljást við hugmyndir um tíma og rúm, örlög fólks og tilgang lífsins í skrifum sínum og leika sér með þau hugtök..

Aðspurð um hvaðan absúrdisminn í skrifum hennar komi vísar hún í martröð sem hún fékk sex ára gömul.Í martröðinni var par í göngutúr í Kjarnaskógi og maðurinn ákvað að tína blóm, sem hafði þær afleiðingar að heimurinn sprakk í loft upp. Af einhverjum ástæðum segir Þorbjörg að þessi martröð hafi fest sér sess í huga hennar og haft mikil áhrif á allt sem hún skrifar.

Að sjálfsögðu hefur Þorbjörg líka orðið fyrir áhrifum frá öðrum rithöfundum í gegnum tíðina og minnist hún sérstaklega á argentínska smásagnahöfundinn og ljóðskáldið Jorge Luis Borges. Fékk hún smásagnasafn hans í fermingargjöf frá föður sínum og las það í bak og fyrir. Borges er uppáhalds rithöfundur Þorbjargar og segir hún að fyrstu smásögur sínar hafi nánast verið eftirhermur af hans stíl. Hún minnist einnig sérstaklega á uppáhalds bók sína, The sirens of Titan, eftir bandaríska rithöfundinn Kurt Vonnegut. Sú saga snýst að sögn Þorbjargar um tíma, tilgang, trúarbrögð og fleira sem hefur haft mikil áhrif á þau umfjöllunarefni sem hún skrifar um. Að lokum minnist hún á ást sína a Kristjáni fjallaskáldi og segist reyna að hefja samræður um hann og ljóð hans í flestum veislum. 

Hvað næst?

Verkefnið sem Þorbjörg vinnur nú að hjá Pastel ritröð felst í því að Pastel mun gefa út hundrað eintök af 30 blaðsíðna hefti af hennar skrifum. Á vefsíðu Pastel segir að það sé “vettvangur mjög ólíkra listamanna að norðan og sunnan, til listsköpunar og sameiginlegs viðburðarhalds. Pastel vinni að kynningu á bókverkagerð sem listformi og virki til að tengja saman nýgræðinga og reynslubolta í skapandi geiranum.” 

Þorbjörg segir að verkið fyrir Pastel sé enn í vinnslu, en það muni koma út á sumardaginn fyrsta, þann 25. Apríl. Enn eigi ýmislegt eftir að koma í ljós en ljóst er að verkið muni fela í sér bæði ljósmyndir og texta og kljást að einhverju leyti við hugmyndir um tíma og rúm, rétt eins og önnur verk Þorbjargar. 

Þó svo að ritlistin sé stór hluti af lífi Þorbjargar eins og er, þá er hún ekki viss um að framtíðin liggi endilega þar. Hún er nefnilega sérstaklega heilluð af sviðslistum, en hún útskrifaðist nýlega af sviðslistabraut Menntaskólans á Akureyri. Lokaverkefni hennar þar fól í sér að semja handrit upp úr texta Matthíasar Jochumssonar um Helga Magra, landnámsmann Eyjafjarðar. Þar vantar ekki upp á absúrdismann frekar en áður, en í handritinu missir Helgi smám saman glóruna þegar hann biður til bæði Þórs og Jesú og þeir svara honum báðir. Hyggst hún sækja frekara nám á þessu sviði og vill halda áfram að vinna við að semja, framleiða og leikstýra leikritum.

Eins og áður kom fram hefur Þorbjörg búið á Akureyri mest sitt líf. Hér á Akureyri þykir Þorbjörgu gott að vera og skemmtilegast þykir henni að fara á skíði í Hlíðarfjalli, en líkt og mörg ungmenni hyggst hún þó flytja suður til að sækja fyrrnefnt sviðshöfundanám við LHÍ. Eftir það nám segir Þorbjörg að hún “væri mjög til í að sjá framtíðina hér,” en segir að tækifæri til að starfa við sviðslist séu frekar takmörkuð í svo litlu bæjarfélagi, svo hugsanlega sæki hún suður eða jafnvel til útlanda. Í öðrum orðum þykir henni vænt um Akureyri og myndi gjarnan vilja búa hér, en ýmis tækifæri gætu lokkað hana annað. 

Stóra spurningin

Loks var Þorbjörg spurð að því hvernig hún tekur kaffið sitt. Tvöfalt Latte með haframjólk var svarið. Óskum við henni góðs gengis í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó