Aldrei fleiri skiptinemar við Háskólann á Akureyri

Aldrei fleiri skiptinemar við Háskólann á Akureyri

Aldrei hafa fleiri skiptinemar stundað nám við Háskólann á Akureyri á vormisseri en nú í upphafi árs 2023. Í byrjun janúar voru 43 skiptinemar frá öllum heimshornum boðnir velkomnir með sérstakri dagskrá þar sem námsumhverfið var kynnt ásamt mörgum praktískum atriðum sem námsfólk þarf að hafa í huga. Þetta kemur fram á vef skólans.

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri (SHA) starfrækir fastanefndir og ein þeirra er Alþjóðanefnd sem starfar náið með Miðstöð alþjóðasamskipta við HA og er helsti tengiliður skiptinema við skólann. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að vera til staðar fyrir skiptinema, halda viðburði og efla tengsl þeirra við stúdenta HA.

Það sem heillaði Asger Rahbek Jenssen, skiptinema frá Danmörku, við fyrstu sýn var einfaldlega veðrið: „Þetta er vissulega klisjukennt en veðrið kom mér verulega á óvart. En það kemur mér jafnmikið á óvart hversu fljótur maður er að venjast stuttum dögum. Að því sögðu get ég ekki orða bundist yfir fegurðinni hér á Akureyri og í kring.“

„Það er ýmislegt á döfinni hjá okkur í Alþjóðanefnd. Í samvinnu við Rúnar og Hildi á Miðstöð alþjóðasamskipta, ætlum við að vera með alíslenskt þorrablót fyrir skiptinemana þar sem tækifæri gefst að smakka helsta þorramat Íslendinga. Einnig eru í kortunum vísindaferðir og reglulegir hittingar. Svo eru að sjálfsögðu fjölbreyttir viðburðir á vegum SHA og aðildarfélaga þess þar sem við hvetjum skiptinemana sérstaklega til að sækja. Þau eru jú partur af samfélaginu hér og setja skemmtilegan svip á námssamfélagið,“ segir Kristján Bjarki Gautason, formaður Alþjóðanefndar.

Erlendir skiptinemar spenntir fyrir Akureyri

„Það er virkilega ánægjulegt að vera að taka á móti metfjölda skiptinema núna á vormisseri eftir lægð í heimsfaraldri. Erlendir stúdentar eru mjög spenntir fyrir námi á Íslandi og sér í lagi Akureyri. Það má hins vegar segja að helsta áskorunin okkar sé að koma okkar stúdentum út í heim. Þar að baki liggja ýmsar ástæður svo sem fjölskylduhagir eða atvinna sem ekki er hægt að stökkva frá. En við aðstoðum okkar nemendur eins og við getum og þreytumst ekki á því að miðla því til stúdenta HA hversu mikill ávinningurinn er að fara í skiptinám. Rannsóknir sýna meðal annars að vinnuveitendur horfa í auknum mæli til alþjóðlegrar reynslu svo dæmi sé tekið,“ segir Hildur Friðriksdóttir, alþjóðafulltrúi á Miðstöð alþjóðasamskipta.

Kynning á skiptinámi 1. febrúar kl. 12

Miðvikudaginn 1. febrúar mun Miðstöð alþjóðasamskipta standa fyrir opnum kynningarfundi um skiptinám fyrir stúdenta HA. „Við erum í samstarfi við yfir 200 háskóla víða um heim svo það má segja að möguleikarnir séu nærri endalausir. Kynningin er frábært tækifæri fyrir þau sem hafa leitt hugann að skiptinámi en eru ekki alveg viss hvort þau eigi að stökkva til. Það er þó mun auðveldara en fólk heldur að taka skrefið,“ segir Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta.

Styrkir og útlönd! Kynning á skiptinámi fer fram miðvikudaginn 1. febrúar kl. 12-13 í stofu L202 í Háskólanum á Akureyri og í streymi. 

Við hvetjum stúdenta HA til að fjölmenna á kynninguna, hér má nálgast Facebook viðburð.

UMMÆLI

Sambíó