,,Aldrei verið stoltari af því að vera Þórsari“

Keppni í Inkasso deildinni í fótbolta lauk um síðustu helgi. Þórsarar luku keppni í 4.sæti deildarinnar, annað árið í röð. Miðjumaðurinn knái, Jónas Björgvin Sigurbergsson var í lykilhlutverki í Þórsliðinu líkt og undanfarin ár. Kaffið.is fékk Jónas til að gera upp sumarið. Gefum honum orðið.

528744648_1280x720

Jónas Björgvin Sigurbergsson

Hefðbundið tímabil á Íslandi er frá því í maí til lok september, byrjun október. Við byrjuðum að sprikla í nóvember og við tóku 3 leiðinlegustu mánuðir tímabilsins. Eftir janúar fer að birta til og verður fótboltinn skemmtilegri í takt við það. Þá byrjar Lengjubikarinn og fer að styttast í æfingaferðina og mótið sjálft. Æfingaferðin var mjög skemmtileg eins og vanalega. Við dvöldum á flottu hóteli með Völsungi einhversstaðar á Spáni. Donni dróg upp einhverjar ljótustu kvartbuxur sem sést hafa á fyrsta deginum þarna úti, leiðin lá bara upp á við frá þeirri stundu. Við spiluðum æfingaleik við Völsung sem svo seinna slógu okkur úr bikarnum í fyrstu umferð.

,,Drulluðum á okkur trekk í trekk í seinni umferðinni“

Tímabilið byrjaði mjög illa og eftir að við höfðum verið slegnir úr bikarnum, tapað fyrir Leikni R og gert jafntefli við Fram á heimavelli tókum við í kjölfarið Eurovision partý í Syndabælinu Tungusíðu 2 og uppskárum sex sigurleiki í röð. Fyrri hlutinn var ágætur stigalega séð, en við drulluðum síðan á okkur trekk í trekk í seinni umferðinni. Eftir sátu 33 stig á töflunni í lok móts og náðum við ekki markmiðum okkar um að fara upp um deild í ár.

,,Aldrei verið stoltari af því að vera Þórsari“

Umgjörðin og stuðningurinn var samt ótrúlega flottur í sumar og hef ég aldrei verið stoltari af því að vera Þórsari. Það fengu margir ungir og efnilegir leikmenn að spreyta sig í sumar sem sýnir hversu sterkt yngri flokka starf er í Þorpinu. Það voru margir góðir leikmenn meiddir í allt sumar en það breytir ekki þeirri staðreynd að maður kemur í manns stað og í lok móts sést að við vorum hreinlega ekki tilbúnir að fara upp sem hópur, þar sem við klúðruðum þessu sjálfir. Framtíðin er björt, við erum að fá upp öfluga stráka sem munu verða máttarstólpar í þessu liði eftir nokkur ár ef þeir halda áfram að sýna þennan metnað og vilja til að ná langt. Við eigum sterkan kjarna af eldri og reyndari Þórsurum sem ætla að hjálpa þessum strákum að komast upp í deild á meðal þeirra bestu.

Að lokum fyrir hönd allra leikmanna vil ég þakka Halldóri Jóni Sigurðssyni eða Donna fyrir vel unnin störf og fagmennsku fram í fingurgóma. Við munum mæta með sterkari, reyndari og betri hóp til leiks á nýju ári. Ég vona að stuðningsmenn og þeir sem vinni í kringum klúbbinn muni gera slíkt hið sama og gerum drauminn að veruleika.

DFK

screen-shot-2016-09-29-at-12-22-41-am

Þórsarar enduðu í 4.sæti 1.deildar annað árið í röð

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó