Allir Hundar Deyja tilnefnd til verðlauna í Svíþjóð: „Að sjálfsögðu mikill heiður og hvatning“Ninna Rún Pálmadóttir

Allir Hundar Deyja tilnefnd til verðlauna í Svíþjóð: „Að sjálfsögðu mikill heiður og hvatning“

Kvikmyndin Allir Hundar Deyja eftir Akureyringinn Ninnu Rún Pálmadóttur er tilnefnd í flokknum ‘New Nordic Voice’ á Nordisk Panorama kvikmyndahátíðinni í Svíþjóð í ár. Sjáðu stiklu myndarinnar í spilaranum hér að neðan.

Allir Hundar Deyja útskriftar stuttmynd Ninnu úr NYU Tisch mastersnámi hennar í kvikmyndaleikstjórn í New York. Myndin var frumsýnd á Reykjavík International Film Festival 2020 og var einnig sýnd á Stockfish kvikmyndahátíðinni í ár. Allir Hundar Deyja er önnur mynd Ninnu sem vekur athygli út fyrir landsteinana en fyrsta mynd hennar, Blaðberinn, sópaði að sér verðlaunum á sínum tíma.

Sýna efst: Sópar að sér verðlaunum fyrir Blaðberann: „Ég er óendanlega þakklát“

Ninna segir það vera mikinn heiður að vera tilnefnd til verðlauna á Nordisk Panorama og hún er spennt að geta sýnt myndina fyrir framan áhorfendur.

Það er að sjálfsögðu mikill heiður og hvatning en mjög gaman að geta sýnt myndina fyrir áhorfendur og sýna þrekverkið sem teymið á bakvið myndina vann saman að. Mér þykir afskaplega vænt um hópinn sem stóð að baki hennar: leikara og fagfólk í kvikmyndagerð. Allt vinir mínir,“ segir Ninna í spjalli við Kaffið.

Það er margt spennandi framundan hjá Ninnu á næstunni en í ágúst heldur hún til Tékklands þar sem Allir Hundar Deyja var valin til þátttöku á Future Frames: Generation NEXT of European Cinema á Karlovy Vary hátíðinni sem fer fram dagana 20.- 28. ágúst. Future Frames, sem haldið er af European Film Promotion (EFP), er vettvangur til að kynna nýjar kvikmyndir frá ungum og efnilegum leikstjórum sem eru nýútskrifaðir úr kvikmyndaskólum í Evrópu. Alls eru 10 leikstjórar valdir til þátttöku. Karlovy Vary kvikmyndahátíðin er með elstu kvikmyndahátíðum í heimi og er hún ein sú stærsta sinnar tegundar í Mið- og Austur- Evrópu.

Eftir kvikmyndahátíðina í Tékklandi heldur hún svo til Svíþjóðar á Nordisk Panorama hátíðina í september. Þá er hún á fullu í undirbúningi að sinni fyrsti kvikmynd í fullri lengd ásamt því að sinna fjölmörgum öðrum verkefnum í kvikmyndagerð.


UMMÆLI