Allir í leikhúsið!

Allir í leikhúsið!

Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, skellti sér á uppsetningu Leikfélags Akureyrar á verkinu And Björk of course.. eftir Þorvald Þorsteinsson á föstudaginn. Þórgnýr skrifaði í kjölfarið eftirfarandi texta sem hann segir ekki vera fullbúna gagnrýni heldur frekar pælingar eftir sýningu og yfirlýsingu um ánægju.

Þórgnýr Dýrfjörð skrifar:

Á föstudaginn fórum við í Samkomuhúsið að sjá „And Björk of course“ eftir minn kæra Þorvald heitinn Þorsteinsson. Einn sá merkasti listamaður sem Akureyri hefur alið. Marghamur.

Sýningin, efni og persónur hafa bara ekki yfirgefið mig síðan við komum heim úr leikhúsinu. Og ég varla getað opnað munninn fyrr en núna. Viðfangsefnin eru erfið mörg og krefjandi og algjörlega laus við að vera sett fram af pólitískum rétttrúnaði sem getur verið þungbært en er nauðsynlegt. Sýningin er líka bráðfyndin, oft óþægilega fyndin – og stundum bara sorgleg.

Trúlega hefur Þorvaldur haft dauðasyndirnar sjö í huga þegar hann skóp persónurnar sjö. Þær eru því frekar erkitýpur en steríótýpur eins og Gréta Kristín leikstjóri bendir á í viðtali. Við Elías (sem sá rennsli í síðustu viku og kom heim með þetta „tips“) og Adda spreyttum okkur á að tengja persónur og höfuðsyndir eftir sýningu – það var gaman og gaf dýpt.

Þeir sem þekkja Vasaleikhús Þorvaldar sem var í útvarpinu á árum áður kannast við sumt á sviðinu í stíl og jafnvel nöfnum á persónum. Þessi skrítni texti sem er samt svo kunnulegur – og of venjulegur fyrir það sem gengur á. Oft svo snilldarlegur að mann langaði til að hafa handritið í höndunum. Það æpir á mann, þetta; að við erum ekki endilega það sem við segjum. Við erum það sem við gerum og hugsum.

Leikararnir eru hreint út sagt framúrskarandi allir sem einn. Þar sem persónurnar eru ein af annarri dregnar fram í sviðsljósið og við fáum að kynnast þeim betur þá fá leikararnir líka allir tækifæri til að skína. Það grípa þau öll sjö. Gæti haft um það mörg orð en betra að þið farið bara og sjáið.

Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri hefur gjörsamlega brillerað í sínu hlutverki og full ástæða til að óska henni sérstaklega til hamingju. Það er afrek að gera þetta svona vel. Og til lukku aðstandendur allir og Leikfélag Akureyrar.

Allir í leikhúsið!

UMMÆLI

Sambíó