Múlaberg

Allt að 125 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir á Akureyri

Á myndinni eru frá vinstri: Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri Búfestis, Guðlaug Kristinsdóttir formaður Búfestis og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: Ragnar Hólm.

Akureyrarbær og Búfesti hsf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um að sveitarfélagið tryggi Búfesti aðgang að lóðum fyrir allt að 125 leigu- og búseturéttaríbúðir á tímabilinu 2018-2022 og eftir því sem samrýmist mati Akureyrarbæjar á íbúðaþörf á hverjum tíma.

Um væri að ræða íbúðir ætlaðar almennum félagsmönnum Búfestis þar sem íbúar verða ekki valdir inn á grundvelli tekna eða félagslegrar stöðu við upphaf búsetunnar. Búfesti hefur mótað þá stefnu að í almennum fjölbýlishúsum og íbúðakjörnum á vegum félagsins skuli gera ráð fyrir hagfelldri blöndun íbúa og breiðri gerð íbúða, bæði að stærðum og verðflokkum.

Í samvinnu við Búfesti mun Akureyrarbær í framhaldi þróa deiliskipulag lóða og byggingarreita sem mætir þörfum Búfestis með það fyrir augum að sem mestri hagkvæmni verði náð og byggingakostnaður verði sem lægstur en um leið verði tryggt að gæði íbúða og umhverfis verði í góðu samræmi við kröfur. Búfesti hsf er tilbúið að takast á við uppbyggingu íbúða í stærri íbúðakjörnun en jafnframt kemur vel til greina að félagið byggi einstök parhús eða minni fjölbýlishús/raðhús á þéttingarrreitum í eldri hverfum eftir því sem slíkt getur þjónað markmiðum skipulagsins og eftirspurn á vettvangi félagsins.

Félag Eldri borgara á Akureyri (EBAK) hefur lýst vilja til samstarfs við Búfesti um aukið íbúðaframboð sem veita mundi félagsmönnum 60 ára + tiltekinn forgang að leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum og „eignaríbúðum innan félags“ samkvæmt nánara samkomulagi aðila.

Búfesti hsf hyggst sækjast eftir stofnstyrkjum vegna bygginga íbúða fyrir lágtekjufólk, eldri borgara, fatlaðra og/eða stúdenta í samræmi við lög nr.52/2016 eftir því sem slíkt fellur innan markmiða félagsins og samræmist mati Akureyrarbæjar á íbúðaþörf á hverjum tíma.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir að með undirritun viljayfirlýsingarinnar sé stigið ákveðið skref til að bæta húsnæðismarkaðinn á Akureyri og svara síaukinni eftirspurn eftir húsnæði. „Húsnæðismarkaðurinn hér hefur verið í talsverðri uppsveiflu síðustu misserin og engin ástæða til að ætla að það breytist í bráð. Við finnum fyrir miklum áhuga fólks á að flytja til bæjarins og að sjálfsögðu viljum við leitast við að mæta þörfum allra þjóðfélagshópa eins og frekast er kostur. Í drögum að aðalskipulagi bæjarins 2018-2030 kemur einmitt fram það markmið að leigu- og búseturéttaríbúðum sem reknar eru af neytendafélögum og án hagnaðarkröfu verði gefinn skilgreindur forgangur og í reglum um úthlutun lóða er þetta einnig sérstaklega tekið fyrir.“

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri Búfestis hsf. segir samkomulagið gríðarlega mikilvægt fyrir framtíð Búfestis og neytendareksturs á íbúðum á svæðinu. „Með því að fá vilyrði fyrir lóðum til lengri tíma skapast svigrúm til að útfæra hagkvæma hönnun og leggja upp raðsmíðaverkefni sem ætti að geta lækkað byggingarkostnað félagsins. Og allri slíkri hagkvæmni skilar félagið beint til neytenda af því að rekstur þess miðar að sjálfbærni og er án hagnaðarkröfu.“

Sambíó

UMMÆLI