Andrea Mist fer til Ítalíu

Andrea Mist fer til Ítalíu

Efnilega knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir sem leikið hefur með Þór/KA undanfarin ár, hefur samið við Oribicia Calcio í Serie A deildinni á Ítalíu. Þetta kemur fram á vef Þórs.

Andrea Mist sagði upp samningi sínum við Þór/KA í haust og hefur síðan leitað að nýju liði. Hún hafði nokkra valkosti í nokkrum löndum en ákvað að skella sér í ítalska boltann.

Oribicia Calcio er sem stendur í botnsæti ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með aðeins 1 stig eftir 13 leiki. Liðið er staðsett í borginni Bergamo á Norður-Ítalíu, skammt norðaustur af Mílanó.

Haft er eftir Andreu Mist á vef Þórs að hún hafi á endanum ákveðið að fylgja ráðum föður síns og fylgja hjartanu.

„Ítalía hefur alltaf heillað mig og ítalska deildin er gríðarlega sterk og verður bara sterkari með hverju ári sem líður,“ segir Andrea.

„Ég tel þetta hið fullkomna tækifæri fyrir mig að bæta mig og þroskast sem leikmaður bæði innan sem utan vallar. Að fá að spila á móti svona stórum liðum eins og AC Milan, Juventus, Roma og fleirum stórliðum hefur verið draumur alla mína tíð og er ég gríðarlega spennt að fá að keppast við svona öflug lið.“

„Ég fékk tilboð frá ýmsum liðum frá mismunandi löndum en einhvernveginn leitaði hugur minn alltaf til baka á Ítalíu, og eins og Palli minn besti pabbi orðar það: „Maður á að fylgja hjartanu,” og ég gerði það og tók ákvörðun og skrifaði undir samning við Orobica Calcio. Ég ætla klára tímabilið með þeim og svo sjáum við bara hvað gerist.“

Andrea Mist er 21 árs gömul en hún hefur leikið allan sinn feril með Þór/KA fyrir utan lánstíma hjá austurríska félaginu FFC Vorderland á fyrstu mánuðum ársins 2019. Síðastliðið sumar náði hún að spila sinn 100. meistaraflokksleik með Þór/KA.

Mynd: Þórsport/Skapti Hallgrímsson

Sambíó

UMMÆLI