Andrésar andar leikarnir snúa aftur

Andrésar andar leikarnir snúa aftur

46. Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir af Skíðafélagi Akureyrar í Hlíðarfjalli við Akureyri dagana 20.-23. apríl. Leikunum hefur verið frestað undanfarin tvö ár vegna Covid-19.

Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins með um 800 keppendur á aldrinum 4-15 ára ár hvert.  Þeim fylgja þjálfara, fararstjórar, foreldrar og  fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 2500-3000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti.

Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna.

Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra ára skeið, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Nú er einnig 4 og 5 ára börnum boðið að taka þátt í leikunum.  Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra.  Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 54 börn á þessum aldri skráð til leiks.

Eftir örlítið risjóttan skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli nú með góðu móti og snjómagn í meðallagi.  Búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár, sérstaklega þar sem ekki hefur tekist að halda leikana tvö undanfarin ár sökum faraldursins.  Andrésarleikarnir eru alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum og marga sem þyrstir í að koma til Akureyrar og taka þátt í fjörinu.

Nú eru 776 börn skráð frá 18 félögum á Íslandi.  Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 134 keppendur.  Í heildina eru 580 þátttakendur skráðir í alpagreinar, 138 í skíðagöngu og 76 í brettakeppnina. Af þessum eru 3 skráðir í stjörnuflokk.

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri miðvikudagskvöldið 19. apríl að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá íþróttasvæði KA kl 19.  Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir.  Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni eru í lok hvers keppnisdags.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó