Anna Jóna ráðin skólastjóri TröllaborgaMynd: Akureyri.is

Anna Jóna ráðin skólastjóri Tröllaborga

Anna Jóna Guðmundsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Tröllaborga frá og með 1. nóvember 2021. Alls sóttu fjórir um stöðuna. Frá þessu er greint á vef bæjarins.

Þar segir að Anna Jóna hafi 18 ára reynslu af stjórnun í leikskólum, þar af 14 ár sem leikskólastjóri. Lengst var hún skólastjóri í Ársölum í Skagafirði þar sem hún kom að bæði uppbyggingu á öflugu skólastarfi og innleiðingu margra umbótaverkefna. Hún lauk leikskólakennaraprófi frá Kennaraháskólanum í Tromsö árið 1987 og meistaraprófi frá Háskólanum á Akureyri árið 2012 þar sem hún fjallaði um menntun og tónlist í lokaverkefni sínu.

Anna Jóna segir í samtali við vef Akureyrarbæjar að sér lítist vel á nýja starfið. „Fyrir mér er leikskólinn heillandi heimur og þar á sér stað stöðug framþróun í skólastarfinu. Ég hlakka til komandi tíma og það má gera alla hluti spennandi í leikskólastarfi því allt er svo lifandi og skemmtilegt,“ segir hún og bætir við að það séu forréttindi að vera innan um börn. „Kenna þeim og skipuleggja skólastarf með þeim og fyrir þau. Ennfremur að eiga gott og gefandi samstarf við foreldra og samstarfsfólk,“ segir Anna Jóna. 

UMMÆLI

Sambíó