Prenthaus

Ansi öflug vél

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Líkaminn okkar er klár, hann er algjör snillingur. Hann er eins og hin flóknasta vél sem gerir allt til að starfa áfram. Í rauninni er magnað hversu smurt líkaminn gengur og hver dagur sem maður kemst í gegnum er sannkallað kraftaverk. Hugsa sér allt sem skynfærin skynja, upplýsingar sem heilinn vinnur úr, blóðið sem hjartað dælir, hreyfingar sem vöðvar framkvæma og lengi mætti telja. Inn í okkur er allt á fullu flesta klukkutíma sólarhringsins.

Með þessar upplýsingar bakvið eyrað er alveg fáránlegt hvað við tökum starfsemi líkamans sem sjálfsögðum hlut. Það er fyrst þegar eitthvað fer að bila eða vanta að þá tökum við eftir hversu mikilvægt það var. Við ættum því að vera þakklát fyrir líkamann okkar og hætta að hugsa neikvætt í garð líkama okkar. Flestir kannast eflaust við að einblína á það neikvæða sem líkaminn býr yfir. Í staðinn fyrir að þakka frumunum fyrir störf sín þá setjum við út á kroppinn og skömmumst yfir því hvernig hann er í laginu. En hverju skiptir ummál læra ef fæturnir virka? Þarf að hafa six-pack til að meltingarfærin sinni sínu starfi? Og hverju skipta nokkrar hrukkur ef heilinn virkar vel? Það er virknin sem skiptir máli, ekki lögun eða stærð.

Það væri fín tilbreyting að útbreiða áfram líkamsvirðingu sem hefur verið þó nokkuð í umræðunni. Þá sýnum við líkama okkar, sem og annarra, virðingu. Það gerum við með því að bæði virða fjölbreytileikann og fagna honum. Það gerum við líka með því að hlusta á líkamann og veita honum það sem hann þarf á hverri stundu. Líkaminn er nefninlega duglegur að senda boð um að hann sé svangur, þreyttur eða veikur og það þarf að virða þessi merki. Alla vega ef við viljum að líkaminn sem vél gangi smurt.

Í staðinn fyrir að hugsa um stærðir, þyngd og lögun ættum við að einblína frekar á virkni og starfsemi. Þó er ekki hægt að líta framhjá því að til er hættuleg undirþyngd og ofþyngd en það krefst aðstoðar frá fagaðilum að sinna slíku ástandi. Fyrir þá sem eru á hinu ,,venjulega” bili ætti ekki að vera nauðsynlegt að pæla í líkamslögun. Þá er ég ekki að segja að fólk eigi að láta í sig hvað sem er og hætta í ræktinni. Heldur að borða hollt því þá gengur vélin smurt og hreyfa sig til að halda vélinni hraustri og liðugri. Með því sýnum við nefninlega líkama okkar virðingu!

*Don’t let your mind bully your body*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó