Listakonan Ásta Hrönn Harðardóttir stendur nú fyrir góðgerðarverkefninu karmaART. Ásta er með málverk á uppboði en kaupandi málverksins fær að velja til hvaða góðgerðarsamtaka upphæðin rennur.
„Verkefnið hefur verið hugarfóstur mitt lengi og fær nú loksins að líta dagsins ljós en er enn í þróun og á vonandi eftir að vaxa og dafna. Markmiðið verkefnisins er að gefa og láta gott af sér leið í gegnum listsköpun. Hugmyndin að verkefninu „karmaART“ kviknaði útfrá áhuga á yoga, mannrækt og löngun til þátttöku í góðgerðarstarfi,“ segir Ásta.
Ásta hefur áður haldið uppboð undir verkefninu karmaART en þá valdi kaupandinn málefnið Einstök börn-Stuðningsfélag barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni til þess að styrkja. Ásta segir að markmiðið sé að halda 7 góðgerðaruppboð á árinu þar sem allur ágóði rennur óskiptur til málefnis, valið af síðasta kaupanda verks.
„Fyrsta uppboðið var í apríl og gekk það vonum framar. Með því að taka þátt og kaupa verk, gefist þér einnig tækifæri á að velja nýtt málefni sem er þér mikilvægt og þú vilt leggja lið. Ég túlka og vinn næsta verk útfrá því. Allur ágóði af þessu uppboði sem nú er í gangi rennur til félagsins „Einstök börn – Stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni“ Það var kaupandi síðasta verks sem fékk að velja málefnið.“
„Málverkið „Vögguvísa“ er innblásið af málefninu. Það sýnir ungabarn umvafið hlýju, náttúru og fegurð heimsins og fiðrildi sem tákn um frelsi, æðri tengingu og umbreytingu. Myndinni fylgir einnig ljóð eftir Þorstein Marinósson, innblásið af verkinu.“
Verkið er á sýningunni „Salon des Refusés“ í Deiglunni sem opnaði í gær.
UMMÆLI