Ásthildur fékk lyklana að skrifstofu bæjarstjóra í morgun

Ásthildur fékk lyklana að skrifstofu bæjarstjóra í morgun

Ásthildur Sturludóttir, nýr bæjarstjóri á Akureyri, kom til starfa í Ráðhúsi Akureyraræjar í morgun. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Eiríkur Björn Björgvinsson, fráfarandi bæjarstjóri, hitti Ásthildi og afhenti henni lyklana að skrifstofu bæjarstjóra. Þá átti Ásthildur einnig stuttan fund með Höllu Björk Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar.

Alls sóttu 18 um starf bæjarstjóra á sínum tíma.  Eftir úrvinnslu umsókna og viðtöl ákvað meirihluti bæjarstjórnar að ganga til samninga við Ásthildi.

Ásthildur starfaði sem bæjarstjóri í Vesturbyggð frá árinu 2010. Hún er uppalin í Stykkishólmi og er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu (Master of Public Administration) í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Ásthildur starfaði áður sem verkefnisstjóri  á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands.

Hún var einnig verkefnisstjóri við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó