Átti ekki að dreifa ferðamönnum um landið?Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Átti ekki að dreifa ferðamönnum um landið?

Af 584 m.kr. úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða komu einungis 2,5% í hlut uppbyggingar á Norðurlandi eystra. Af 22 umsóknum hlutu einungis 2 verkefni styrk en þeir fjármunir fara i uppbyggingu salernisaðstöðu við fyrirhugaða kirkjubyggingu í Grímsey annars vegar og í að færa og stækka rotþró við salernin í Drekagili hins vegar.

Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda og annarra hagaðila um að dreifa ferðamönnum um landið speglast hún ekki í þessari úthlutun ráðherra ferðamála. Af heimasíðu Ferðamálastofu sem fer með vörslu sjóðsins kemur fram að markmið og hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

Ekki er nema ár síðan hávær gagnrýni var sett fram á nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar sem fékk heitið Vörður þar sem fjórir staðir voru valdir til sérstakrar markaðssetningar til íslenskra og erlendra ferðamanna en áfangastaðirnir voru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón.

Allt eru það staðir á Suðurlandi sem nú þegar hafa verið vel kynntir í fjölda ára. Áform voru um að verja til þess 300 milljónum árið 2021 en úthlutunin var tilkynnt í apríl 2021. Nú þegar millilandaflug um Akureyrarflugvöll er hafið á ný og ferðamannastraumurinn liggur norður og austur um landið er gríðarlega mikilvægt að byggja upp innviði og áfangastaði á svæðinu til að geta veitt viðunandi þjónustu. Það verður seint gert með þessari forgangsröðun fjármuna.

Pistill úr nýjasta fréttabréfi SSNE fyrir maí 2022

UMMÆLI