Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, segir það miður að Akureyrarbær sjái sér ekki fært um að styrkja Golfklúbb Akureyrar fyrir Íslandsmótið í golfi sem haldið verður á Jaðri í sumar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
„Við áttum satt best að segja von á meiri vilja bæjarins gagnvart þessu móti, en kemur okkur kannski ekki algjörlega á óvart því þetta er sama niðurstaða og var árið 2016 þegar síðast var haldið Íslandsmót á Jaðarsvelli,“ segir Steindór í samtali við Morgunblaðið en Golfklúbbur Akureyrar sótti um styrk að upphæð 2 milljónir króna til Akureyrarbæjar í því skyni að gera völlinn sem best úr garði áður en blásið yrði til Íslandsmóts.
„Auðvitað þykir okkur miður að bærinn sjái sér ekki fært að styrkja okkur, þetta er stærsta golfmótið sem haldið er á hverju ári og þar etja allir bestu kylfingar landsins kappi. Það er mikil lyftistöng fyrir íþróttina á Akureyri að fá mótið í bæinn og er ákveðinn stimpill á gott starf hjá Golfklúbbi Akureyrar. Það ríkir mikill metnaður í okkar herbúðum að bjóða gestum upp á góða upplifun. Öll aðstaða er til fyrirmyndar og kapp er lagt á að kylfingar sem leggja leið sína á Jaðarsvöll fari með eftirminnilega upplifun í farteskinu að leik loknum,“ segir Steindór.
Íslandsmótið í golfi verður haldið á Jaðarsvelli á komandi sumri, dagana 5. til 8. ágúst. Þátttakendur, konur og karlar, verða um 150 talsins. Steindór segir í umfjöllun Morgunblaðsins að mikil spenna sé innan klúbbsins fyrir mótinu í sumar og metnaðurinn sé mikill að hafa umgjörðina eins og best verður á kosið.
Lengra viðtal og umfjöllun má finna á vef mbl.is með því að smella hér.
UMMÆLI