Aukinn afsláttur á fasteignagjöldum

Mynd: Auðunn Níelsson

Nú eru álagningarseðlar fasteignagjalda 2018 aðgengilegir bæjarbúum í íbúagátt sveitarfélagsins og eflaust margir að velta fyrir sér þeim breytingum sem orðið hafa á milli ára.

Bæjarstjórn ákvað undir lok síðasta árs að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis um tæplega 8% til að vega á móti hækkun fasteignaskatts sem fyrirsjáanleg var vegna hækkunar á fasteignamati. Breytingin þýðir að álagning meðalíbúðar með 25 milljón króna fasteignamat er 7.500 kr. lægri en orðið hefði með óbreyttri álagningarprósentu.

Samhliða þessu var tekjumörkum í reglum um afslátt á fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum breytt og hámarksfjárhæð afsláttar var aukin verulega.

Nú liggur fyrir að 826 elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti 2018 og er heildarfjárhæð afsláttar tæplega 49 milljónir króna og meðaltalsfjárhæð afsláttar því 59 þúsund krónur. Að sjálfsögðu er afslátturinn mishár eftir tekjum en getur hæst farið í 100 þúsund krónur. Þetta er töluverð breyting frá fyrra ári en þá fengu alls 631 einstaklingur afslátt og var heildarfjárhæð afsláttar ríflega 21 milljón króna og meðaltalsafsláttur 34 þúsund krónur. Hámarksfjárhæð afsláttar á árinu 2017 var 65.700 krónur.

Afsláttur á fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2017 og ekki þarf að sækja um þennan afslátt. Hægt er að sjá fjárhæð afsláttarins á álagningarseðli fasteignagjalda en þeir eru sem áður segir aðgengilegir í íbúagáttinni hér á Akureyri.is.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2018 er tæpir 3,4 milljarðar króna, fasteignaskattur 1.965 milljónir króna, lóðarleiga 410 milljónir króna, vatnsgjald 304 milljónir króna, fráveitugjald 408 milljónir króna og sorphirðugjald 303 milljónir króna. Á árinu 2017 nam álagningin samtals 3.230 milljónum króna.

Myndir og frétt af Akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó