Bæjarráð Akureyrar leggst gegn fyrirhugaðri sameiningu MA og VMA

Bæjarráð Akureyrar leggst gegn fyrirhugaðri sameiningu MA og VMA

Rætt var um fyrirhugaða sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri á fundi bæjarráðs í gærmorgun.

Karl Frímannsson skólameistari MA og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA sátu fund bæjarráðs þegar málið var á dagskrá og einnig bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson og Andri Teitsson, ásamt Láru Halldóru Eiríksdóttur sem sat undir þessum fundarlið í gegnum fjarfundarbúnað.

Að lokinni umræðu skólameistara og fundarmanna véku skólameistarar af fundi bæjarráðs en inn á fund bæjarráðs mættu fulltrúar nemendafélaga MA og VMA, Krista Sól Guðjónsdóttir forseti Hugins, Tómas Óli Ingvarsson varaforseti Hugins, Steinar Bragi Laxdal formaður Þórdunu og Linda Björg Kristjánsdóttir varaformaður Þórdunu.

Loks lagði meirihluti bæjarráðs, Heimir Örn Árnason D-lista, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, eftirfarandi bókun:

Við teljum óábyrgt að sameina eigi MA og VMA miðað við þær forsendur sem liggja fyrir og tökum undir þær ábendingar sem nemendur og kennarar hafa nú þegar kynnt. Þegar skýrsla stýrihóps er skoðuð kemur margt þar fram sem er algjörlega á skjön við það sem mennta- og barnamálaráðherra fór yfir með bæjarstjórn í síðustu viku. Í skýrslunni má sjá að möguleg sameining skólanna er fyrst og fremst hagræðingaraðgerð, þar sem sparnaður birtist m.a. í fækkun námsráðgjafa, sálfræðinga, kennara og stækkun nemendahópa. Það fer gegn menntastefnu stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á vellíðan nemenda og jöfn tækifæri til náms. Við teljum afar mikilvægt að nemendur hafi val um bekkjarkerfi og áfangakerfi á Akureyri. Við leggjumst því gegn sameiningu MA og VMA og skorum á ráðherra að draga ákvörðun sína til baka.

UMMÆLI

Sambíó