Píeta

Bæjarstjóri jákvæður gagnvart því að halda Bíladaga ef það er fullri sátt við bæjarbúa

Bæjarstjóri jákvæður gagnvart því að halda Bíladaga ef það er fullri sátt við bæjarbúa

Fulltrúar frá Aflinu, Akureyrarstofu, Bílaklúbbi Akureyrar, framkvæmdamiðstöð Akureyrarbæjar, lögreglu og slökkviliði, funduðu í gærmorgun um Bíladaga 2017 sem nú standa yfir á Akureyri og lýkur formlega laugardaginn 17. júní.

Fram kom í máli Einars Gunnlaugssonar formanns BA að vel hafi gengið fram að þessu, allt kapp sé lagt á að allir virði siðareglur Bíladaga og að tekið verði stíft á þeim brotum sem kunna að koma upp, líkt og gert var í fyrra. Þá gildi einu hvort brotin eigi sér stað utan eða innan aksturssvæðis BA.

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, verða sýnileg á stærstu viðburðum og lögreglan fylgist vel með því að allt fari vel fram. Lögreglumenn á vakt verða á bæði merktum og ómerktum bílum. Starfsmenn framkvæmdamiðstöðvar bæjarins hafa komið upp hraðahindrunum víða um bæinn til að koma í veg fyrir spól og óvarlegan akstur sem er að sjálfsögðu bannaður eins og ávallt.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri leggur ríka áherslu á að allt fari vel fram og segir að eftir að allir viðburðir hafi verið færðir upp á akstursíþróttasvæði BA hafi skapast meiri sátt í bænum um Bíladaga. „Ég er jákvæður gagnvart því að halda hátíð sem þessa innan bæjarmarkanna en ekki nema það sé í fullri sátt við bæjarbúa. Það verða allir að leggjast á eitt, sýna tillitssemi og virða rétt íbúa til öryggis og næðis,“ segir Eiríkur Björn á vef Akureyrarbæjar.

Siðareglur Bíladaga:

  • Við göngum (keyrum) vel um bæinn okkar, jafnt gestir sem heimamenn
  • Virðum hámarkshraða í íbúðarhverfum sem og á vegum úti
  • Við spólum einungis á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar
  • Gestir Bíladaga eru jákvæðir og þar af leiðandi þrælskemmtilegir
  • Við berum virðingu fyrir náunganum og tökum höndum saman um að gera Bíladaga frábæra
  • Gestir Bíladaga ganga snyrtilega um umhverfi sitt
Sambíó

UMMÆLI