„Bærinn er gjörsamlega metnaðarlaus þegar kemur að því að skara framúr“

„Bærinn er gjörsamlega metnaðarlaus þegar kemur að því að skara framúr“

Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handbolta, lét bæjarstjórn Akureyrar heyra það í grein sem hann skrifaði á Facebook-síðu sinni í gær. Jónatan segist svekktur og sár út í Akureyrarbæ og segir bæinn metnaðarlausan þegar kemur að íþróttum.

„Hér virðist bæjarstjórn og ráðamenn skammast sín fyrir að byggja upp til íþrótta, telja það óþarfa kostnað en ekki fjárfestingu til framtíðar í öflugu íþróttastarfi og heilbrigðu líferni. Bærinn er gjörsamlega metnaðarlaus þegar kemur að því að skara framúr,“ skrifar Jónatan.

„Afhverju er ekki hægt að byggja almennilega upp hér fyrir íþróttir? Nota bene, þegar er byggt upp fyrir íþróttir er það ekki bara fyrir meistaraflokkinn – heldur líka þau 1300 börn sem æfa hjá KA, hvort sem það er handbolti, fótbolti, blak, júdó eða badminton. Ef ég ber aðstöðu míns liðs saman við ÖLL önnur lið í efstu deild erum við á botninum.Við deilum íþróttahúsi með þremur öðrum keppnisliðum í efstu deild á Íslandi. Þar af leiðandi er barist um æfingatíma, þeir misjafnlega góðir og misjafnlega langir. Þeir eiga það líka til að detta út og falla niður vegna annarra leikja og mótahalds hjá hverri grein fyrir sig. Klefinn okkar er gömul geymsla. Geymsla sem að mínir eigin leikmenn og stjórnarmenn voru svo heppnir að fá úthlutaða hjá KA til þess að gera klefa úr og gerðu það á eigin kostnað. Hinsvegar er ekki pláss fyrir sturtur fyrir leikmennina. Aðstaða fyrir áhorfendur í KA-heimilinu er döpur. Hér er engin aðstaða til að bjóða upp á ársmiðakaffi, hitting fyrir leik, spjall eftir leik eða hvað sem er gert til þess að gera sem mest fyrir upplifun fólks að koma á íþróttaleiki. KA á bestu áhorfendur á landinu en áhorfendur KA eiga ekki að sætta sig við þessa aðstöðu sem boðið er uppá.“

Akureyrarbær hefur fengið gagnrýni frá mörgum íþróttafélögum í bænum. Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs KA í fótbolta, gagnrýndi bæinn í þættinum 433.is á Hringbraut um daginn og sagði það sorglegt hvað bæjaryfirvöld dragi lappirnar í þessum málum.

Aðstaða sundfólks í bænum hefur einnig verið gagnrýnd í gegnum tíðina. Dýrleif Skjóldal bað á síðasta ári um að vera strikuð út af lista yfir fólk sem hefur hlotið heiðursviðurkenningu Íþróttaráðs bæjarins í pistli þar sem hún gagnrýndi æfinga og kennslu aðstöðu sundfólks í bænum.

Sjá einnig: Ég og Óðinn, Óðinn og ég!

Skrif Jónatans má finna í heild á Facebook síðu hans hér að neðan:

UMMÆLI