Baldvin greindist með krabbamein 19 ára gamall: „Ég er í raun rosalega stoltur af sjálfum mér“

Baldvin greindist með krabbamein 19 ára gamall: „Ég er í raun rosalega stoltur af sjálfum mér“

Baldvin Rúnarsson var 19 ára gamall, að hefja nám á fjórða ári við Menntaskólann á Akureyri, þegar að hann greindist með stórt heilaæxli. Hann hefur tekist á við sín veikindi af miklu æðruleysi og þótt brekkurnar hafi verið margar og brattar þá fer hann þær að því er virðist með jákvæðni og bjartsýni í farteskinu, vel studdur af fjölskyldu og vinum. Í dag er hann 25 ára og starfar sem knattspyrnuþjálfari hjá Þór á Akureyri. Í fyrsta þætti af Ungt fólk og krabbamein á N4 sagði Baldvin sögu sína.

Baldvin fór í fyrstu skurðaðgerðina rétt fyrir jólin 2013. Hann útskrifaðist síðan sem stúdent vorið 2014, spilaði fótbolta með Magna á Grenivík þá um sumarið og hélt svo út á vit ævintýranna. „Auðvitað er þetta hraðahindrun á manni, ég var þarna búinn að fá inn í skóla á fótboltastyrk í Alabama, Bandaríkjunum. Planið var því bara að ná sér góðum og fara síðan út,“ sagði Baldvin en veikindin áttu eftir að hafa sitt að segja um þau plön. 

Baldvin náði einni önn úti í Alabama en í jólafríinu kom í ljós að hann þurfti að fara í aðgerð sem gerði það að verkum að hann neyddist til að hætta í skólanum og flytja aftur heim.

„Mér fannst þetta hundleiðinlegt. Ég var með besta vini mínum úti í náminu og fannst leiðinlegast að þurfa að skilja hann eftir, því ég vildi auðvitað að hann myndi halda áfram. Það var samt ekki nein brjáluð fýla í mér. Ég var bara að flytja heim aftur á Akureyri og gera það sem læknarnir sögðu mér að gera.“

„Maður getur ekki verið undirbúinn fyrir svona. Þó að maður hafi kannski lent áður í einhverjum áföllum. Þá getur maður ekki vitað hvað 19 ára einstaklingur gerir þegar að hann fær svona fréttir. Ég spáði í raun aldrei í þessu, þetta gerðist bara og er bara svona,“ sagði Baldvin sem hefur þrisvar sinnum lagst á skurðarborðið og undirgengist heilaaðgerð. „Það breyttist allt eftir að það var búið að fikta eitthvað í hausnum á manni. Ég hélt alveg áfram að sprikla en ég fann það strax eftir þetta að ég gat ekkert í fótbolta lengur.“

Baldvin segist hafa upplifað það að foreldrum hans hafi liðið verr en honum og að hann hugsi að það sé mjög erfitt að eiga barn í þessari stöðu. Sjálfur hafi hann aldrei fundið fyrir kvíða fyrir aðgerðirnar.

„Ég myndi segja að ég væri heppinn, hvernig ég tók þessu. Ég er þakklátur og stoltur. Ég hef held ég aldrei sagt það áður, en ég er í raun rosalega stoltur af sjálfum mér.“

Ítarlegt viðtal við Baldvin má finna í N4 dagskránni þessa vikuna en viðtalið má einnig sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI