Færeyjar 2024

Baldvin Þór og Sandra María eru Íþróttafólk Akureyrar 2023

Baldvin Þór og Sandra María eru Íþróttafólk Akureyrar 2023

Hlauparinn Baldvin Þór Magnússon úr UFA er íþróttakarl Akureyrar 2023 og knattspyrnukonan Sandra María Jessen hjá Þór/KA er íþróttakona Akureyrar 2023. Í öðru sæti voru þau Hallgrímur Mar Steingrímsson knattspyrnumaður í KA og Helena Kristín Gunnarsdóttir blakkona í KA. Í þriðja sæti voru Alex Cambray Orrason lyftingamaður í KA og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona hjá HFA.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2023 var lýst á Íþróttahátíð Akureyrar á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi 31. janúar 2024. 11 af 20 aðildarfélögum ÍBA tilnefndu alls 31 íþróttamann úr sínum röðum, 17 íþróttakonur og 14 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp. 

Á hátíðinni veitti fræðslu- og lýðheilsuráð viðurkenningar til 12 aðildarfélaga ÍBA vegna 361 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 9 afreksefnum styrki. Samtals hlutu því 19 einstaklingar afreksstyrki að þessu sinni.

Baldvin Þór Magnússon er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta sinn. Baldvin Þór er fæddur á Akureyri og bjó hér fyrstu árin en flutti þá til Bretlands með foreldrum sínum. Hann fór á íþróttastyrk til Bandaríkjanna í háskólanám og æfði þar og keppti í fimm ár. Hann hefur nú snúið aftur til Bretlands og æfir þar með sterkum hópi hlaupara. Baldvin er einn allra sterkasti millivegalengda- og langhlaupari sem Ísland hefur átt. Hann hefur náð framúrskarandi árangri á undanförnum árum í hlaupum frá 1500 m og upp í 10 km hlaup. Hann á sem stendur þrettán virk Íslandsmet, sex í yngri aldursflokkum og sjö í flokki fullorðinna. Baldvin keppti á árinu fyrir Íslands hönd á Evrópubikar í Póllandi í 800 og 1500 m hlaupum og í víðvangshlaupum á Norðurlandameistaramóti í nóvember og Evrópumeistaramóti í desember og náði þar besta árangri sem Íslendingur hefur náð á stórmóti í víðavangshlaupum. Baldvin setti fimm Íslandsmet á árinu. 10 km götuhlaup 28:51 3000 m hlaup utanhúss 7:49,68 1500 m hlaup utanhúss 3:40,36 Míla innanhúss 3:59,60 5000 m hlaup innanhúss 13:58,24 Varð Íslandsmeistari í 5000 m hlaupi utanhúss. Varð í 16 sæti af 82 keppendum á Evrópumeistaramótinu í Víðavangshlaupum í desember sem er langbesti árangur sem íslendingur hefur náð á því móti. Baldvin stefnir á að ná ólympíulágmarki fyrir 5000 m hlaup á næsta ári.

Sandra María Jessen er íþróttakona Akureyrar í fyrsta sinn. Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu. Sandra María var valin besti leikmaður Þórs/KA að loknu keppnistímabili 2023. Hún tók við fyrirliðahlutverkinu fyrir tímabilið 2023 og var lykilmanneskja í liði Þórs/KA sem endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í haust. Sandra María vann sér fast sæti í landsliðinu aftur eftir að hafa verið í barnsburðarleyfi og hefur verið í byrjunarliði Íslands í næstum öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í ár þrátt fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum um mitt sumar og misst af æfingaleikjum liðsins í júlí. Sandra María var markahæst leikmanna Þórs/KA í Bestu deildinni annað árið í röð með 8 mörk í 19 leikjum. Hún skoraði auk þess 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tíu mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti í janúar. Sandra María lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (KSÍ leikir og Evrópukeppni) og nokkuð er síðan hún jafnaði og bætti félagsmet hjá Þór/KA í skoruðum mörkum í efstu deild og bætir það met með hverju marki sem hún skorar. Að meðtöldum leikjum í efstu deildum Tékklands og Þýskalands náði Sandra María þeim áfanga í haust að spila sinn 200. leik í efstu deild, 153 á Íslandi og 48 erlendis.

Á athöfninni fékk ÍBA fyrirmyndahéraðsviðurkenningu ÍSÍ endurnýjaða, aðildarfélög sem áttu Íslandsmeistara og landsliðsfólk á liðnu ári fengu viðurkenningar og heiðursviðurkenningar fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar voru afhendar sex öflugum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri. Þau sem hlutu heiðursviðurkenningu í ár voru Dan Jens Brynjarsson (Skíðafélag Akureyrar), Fylkir Þór Guðmundsson (Íþróttafélagið Eik), Jóhann Gunnar Bjarnason (Knattspyrnufélag Akureyrar), Unnur Kristjánsdóttir (Sundfélagið Óðinn), Þórir Tryggvason (sjálfboðaliði og ljósmyndari) og Þórunn Sigurðardóttir (Íþróttafélagið Þór).

Þetta er í 45. sinn sem Íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa 30 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.

Íþróttamenn Akureyrar 1979-2023:

1979 Gunnar Gíslason, handknattleikur og knattspyrna
1980 Haraldur Ólafsson, lyftingar
1981   Haraldur Ólafsson, lyftingar
1982   Nanna Leifsdóttir, skíði
1983   Nanna Leifsdóttir, skíði
1984   Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1985   Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1986   Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1987   Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1988   Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1989   Þorvaldur Örlygsson, knattspyrna
1990   Valdemar Valdemarsson, skíði
1991   Rut Sverrisdóttir, sund
1992   Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1993   Vernharð Þorleifsson, júdó
1994   Vernharð Þorleifsson, júdó
1995   Vernharð Þorleifsson, júdó
1996   Vernharð Þorleifsson, júdó
1997   Ómar Halldórsson, golf
1998   Vernharð Þorleifsson, júdó
1999   Vernharð Þorleifsson, júdó
2000   Ingvar Karl Hermannsson, golf
2001   Vernharð Þorleifsson, júdó
2002   Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2003   Andreas Stelmokas, handknattleikur
2004   Rut Sigurðardóttir, Tae Kwon Do
2005   Guðlaugur Már Halldórsson, akstursíþróttir
2006   Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2007   Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2008   Rakel Hönnudóttir, fótbolti
2009   Bryndís Rún Hansen, sund
2010   Bryndís Rún Hansen, sund
2011   Bryndís Rún Hansen, sund
2012   Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrna
2013  Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2014   Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2015   Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016   Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016   Bryndís Rún Hansen, sund
2017 Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur
2017 Stephany Mayor, knattspyrna
2018 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2018 Hulda B. Waage, kraflyftingar
2019 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2019 Aldís Kara Bergsdóttir listhlaup
2020 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2020 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup

2021 Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrna

2021 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup

2022 Nökkvi Þeyr Þórisson, knattspyrna

2022 Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðar

2023 Baldvin Þór Magnússon, hlaup

2023 Sandra María Jessen, knattspyrna

Mynd með frétt: Þórir Tryggva

UMMÆLI

Sambíó