Batamerki í rekstri Akureyrarbæjar

Göngugatan á Akureyri

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði í gær. Fram kemur að reksturinn hefur verið nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir ríflega 1.242 milljón króna gjaldfærslu vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum. Samstæða Akureyrarbæjar var rekin með 80 milljón króna halla sem er ríflega 600 milljónum króna betri árangur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Guðmundur Baldvin Guðmunssson, formaður bæjarráðs, segist í samtali við Akureyri.is vera nokkuð sáttur við niðurstöðuna. „Þrátt fyrir tap sjáum við betri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir og ef horft er framhjá gjaldfærslu vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga þá getum við ekki annað en verið sátt með þau batamerki sem við sjáum í rekstri sveitarfélagsins.“

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 755 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 754 milljóna króna rekstrarafgangi. Heildarniðurstaða var þó verulega betri en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir 80 milljóna kr. neikvæða niðurstöðu en áætlun gerði ráð fyrir 687 milljóna kr. neikvæðri niðurstöðu.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 2.639 millj. kr. sem er 1.284 millj. kr. meira en áætlun hafði gert ráð fyrir og 370 millj. kr. hærri upphæð en árið áður.

Veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur nam 11,7% í samstæðunni og 8,5% í A-hluta.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2016 bókfærðar á 42.488 millj. kr. en þar af voru veltufjármunir 5.367 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 23.910 millj. kr. en þar af voru skammtímaskuldir 3.398 millj. kr. Fjárhagur Akureyrarbæjar er traustur og nam skuldaviðmið í árslok samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga 87% en var 94% árið áður.

„Við sjáum ýmis jákvæð teikn í rekstrinum. Skattekjur eru umfram áætlun, veltufé frá rekstri er að aukast verulega hjá A-hluta og skuldahlutfall sveitarfélagsins er komið í sögulegt lágmark,“ segir Guðmundur Baldvin. Hækkun lífeyrisskuldbindinga hafi hins vegar mikil áhrif á rekstrarniðurstöðuna en hækkunin er afleiðing þeirrar þróunar sem orðið hefur á launum opinberra starfsmanna.

„Aðgerðir þær sem við gripum til á síðasta ári, með stofnun aðgerðarhóps um framtíðarrekstur sveitarfélagsins  eru að skila sér bæði beint auk þess sem við erum nú með meiri eftirfylgni og aðhald með öllum rekstri.  Eitt af markmiðum okkar var að koma á jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins og segja má að rekstrarafkoma ársins 2016 sé skref í rétta átt“ segir Guðmundur Baldvin að lokum.

Ársreikningur Akureyrarbæjar 2016.

UMMÆLI

Sambíó