Bergur Ebbi ferðast um Norðurland

Bergur Ebbi ferðast um Norðurland

Skemmtikrafturinn Bergur Ebbi Benediktsson mun heimsækja Norðurland 1. til 3. september næstkomandi með nýja uppistandssýningu. Bergur Ebbi er einn reyndasti uppistandari landsins með yfir þrettán ára reynslu af uppistandi, fyrirlestrahaldi og alvarlegum jafnt sem gamansömum greiningum á samfélaginu í bókum, pistlum, sjónvarps- og útvarpsefni.

Bergur Ebbi verður á Græna hattinum á Akureyri 1. september, á Kaffi Rauðku á Siglufirði 2. september og í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík 3. september.

„Það verður sérstaklega skemmtilegt fyrir mig að fara með grínið mitt norður yfir heiðar. Föðurfjölskylda mín er frá Norðurlandi og mikið af sögunum sem ég er að segja í uppistandinu eru byggðar á frásögnum frá pabba mínum og eiga því uppruna sinn á hinum ýmsu stöðum fyrir norðan. Ég veit líka að það er alltaf tekið vel á móti manni á Græna hattinum og svo er ég mjög spenntur fyrir Dalvík og Siglufirði, þar sem ég hef ekki komið fram áður,“ segir Bergur Ebbi.

Kynslóðir er ný uppistandssýning þar sem Bergur Ebbi skemmtir fólki í heila kvöldstund með gamanefni sínu um vesenið sem fylgir því að búa á Íslandi og lifa á tímum stórkostlegra tækni- og þjóðfélagsbreytinga. Sýningin var fyrst sýnd í Tjarnarbíói í vor og voru viðtökur framar öllum vonum og uppselt kvöld eftir kvöld þar til farið var í sumardvala. Nú stígur Bergur Ebbi á stokk að nýju og fer með grínið sitt víða um land, meðal annars á þrjá staði á Norðurlandi í september.

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir var hrifin af sýningunni en í dómi sínum í Fréttablaðinu skrifaði hún: „Sturlað fyndinn en líka alvöru hugsuður á fáránlega áreynslulausan hátt. Drepfyndnar pælingar, bráðþarfar í nútímamenningunni.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó