Betri þjónusta við eldra fólk hjá HSN

Betri þjónusta við eldra fólk hjá HSN

Arna Rún Óskarsdóttir, öldrunarlæknir, hefur verið ráðin til starfa hjá HSN. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HSN í dag en þar segir að Arna Rún hafi mikla reynslu sem öldrunarlæknir.

Hún hefur starfað um árabil sem öldrunarlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri og verið forstöðulæknir endurhæfingar- og öldrunarlækninga. Þá hefur hún verið formaður Færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis Norðurlands til margra ára. Hún mun m.a. starfa með heimahjúkrun á Akureyri, koma að starfsemi hjúkrunardeilda HSN á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð og Húsavík og veita ráðgjöf til starfsfólks. Arna Rún mun hefja störf hjá HSN í sumar.

„Eldra fólki fjölgar á starfssvæði HSN eins og annarsstaðar. Starfsfólk hjúkrunardeilda og heimahjúkrunar HSN vinnur mikið og gott starf í þágu aldraðra sem búa heima þrátt fyrir heilsufarsvanda og skerta færni. Mitt hlutverk verður m.a. að vinna með starfsfólki heimahjúkrunar við að þróa áfram og bæta þjónustu við þennan hóp aldraðra með það markmiði að auka lífsgæði og getu þeirra til sjálfsbjargar,“ segir í tilkynningu HSN.


UMMÆLI