Biggi Maus gefur út nýja breiðskífu

Biggi Maus gefur út nýja breiðskífu

Birgir Örn Steinarsson, sem starfar undir listamanna nafninu Biggi Maus, gefur út nýja breiðskífu þann 5. júní næstkomandi. Platan heitir ‘Litli Dauði/Stóri hvellur’ og er öll unnin í samstarfi við Togga Nolem (Þorgils Gíslason) sem gerði garðinn frægan með Skyttunum, Kött Grá Pjé og þessa daganna í rokksveitinni Leður. Hér fylgja þeir eftir vinsældum laganna ‘Má ég snúza meir?’ og ‘Ekki vera að eyða mínum tíma’ sem komu út í fyrra. Á plötunni má heyra ný lög auk útgáfu Bigga og Togga á laginu ‘I don’t remember your name’ eftir Friðrik Dór & Kiasmos.

Hljóðheimur þeirra er einhvers konar stökkbreyting á nýrómantík níunda áratugarins og má þar nefna sveitir á borð við Bauhaus, Bara-flokkinn, Blondie og Grafík sem áhrifavalda.

Platan er öll unnin á Akureyri þar sem Birgir býr nú og starfar sem listamaður og sálfræðingur. Ákveðið var að fara alla leið í tengingunni við höfuðstað Norðurlands og fengu þeir félagar leyfi til þess að hljóðrita stóran hluta plötunnar í sjálfu Davíðshúsi, sem skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi gaf bænum að gjöf í erfðarskrá sinni. Allur söngur og píanóspil var því hjóðritað inn á vinnustofu Davíðs, með eintak af sjálfri Guðbrandsbiblíu á flyglinum.

Eitthvað er um gesti á plötunni og má þar helst nefna Páll Ragnar Pálsson félaga Bigga úr Maus, Valmar Valjaots úr Hvanndalsbræðrum og Rósu Ómars sem syngur í aukalagi á vínylútgáfunni. Einnig koma Mausararnir Eggert og Danni við sögu líka.

Birgir undirbýr tónleikahald til þess að fylgja útgáfu plötunnar eftir. Þar hefur hann raðað í kringum sig tónlistarfólki frá Akureyri sem mun koma fram með honum undir nafninu Biggi Maus & Memm.

Birgir fagnar rúmlega 30 ára farsælum ferli í tónlistarbransanum en hann hefur m.a. náð gullplötu sölu ásamt hljómsveit sinni Maus og unnið íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð og sem hljómsveit ársins. Birgir vann einnig Eddu verðaunin árið 2014 fyrir handrit ársins (Vonarstræti).

Birgir gaf út sex breiðskífur ásamt Maus en hans fyrsta sólóskífa (Id) kom út árið 2006. Siðan þá hefur hann einnig starfað og gefið út lög og plötur á streymisveitum með hljómsveitunum Króna (2008-2010) og Bigital (2015).

Dagsetningar;

15. maí – Lagið ‘I don’t remember your name’ eftir Friðrik Dór og Kiasmos gefið út á streymisveitum.

30 maí – For-hlustunarteiti plötunni á LYST í Lystigarðinum, Akureyri.

5. júní– Útgáfupartý í 12 Tónum.

7. september – Útgáfutónleikar á KEX Hostel

13. september – Útgáfutónleikar á Græna hattinum.

UMMÆLI

Sambíó