Birna Bald íshokkíkona SA árið 2016

Birna Baldursdóttir Mynd: VMA

Birna Baldursdóttir Mynd: VMA

Íshokkíkonan knáa Birna Baldursdóttir hefur verið valin íshokkíkona ársins 2016 hjá Skautafélagi Akureyrar.

Birnu ættu allir akureyrskir íþróttaáhugamenn að þekkja enda hefur hún verið í fararbroddi í hinum ýmsu íþróttum á undanförnum árum þó mest hafi hún látið að sér kveða á svellinu og í blaki hjá KA.

Í umsögn á heimasíðu Skautafélagsins segir meðal annars um Birnu:

Birna hefur spilað íshokkí síðan árið 1999 og hefur alla tíð verið með mikla líkamlega yfirburði í deildinni og verið með gott markanef. Birna er gríðarlega reynslumikill leikmaður sem hefur spilað 16 tímabil með SA og farið á 7 heimsmeistaramót með kvennalandsliði Íslands. Birna tók þátt í fyrsta heimsmeistaramótinu sem kvennalandsliðið tók þátt í í Nýja-Sjálandi árið 2005 en einnig HM í Rúmeníu árið 2008 þegar liðið vann til gullverðlauna. Birna var valinn íshokkíkona ársins af ÍHÍ árið 2005.

Birna er mikil íþróttakona og hin fullkomna fyrirmynd fyrir upprenandi íshokkíleikmenn. Hún hugsar vel um líkama sinn og passar uppá að mætaræði, æfingar og andlegur undirbúningur seú til þess fallinn að hún geti ávallt æft og keppt á afrekssviðinu. Birna er einn besti leikmaður deildarinnar og landsliðs Íslands þrátt fyrir að vera einnig elsti leikmaður deildarinnar.

Birna er einnig frábær í hóp og mikil liðsmanneskja. Hún leiðir liðin sín á öllum sviðum leiksins. Hún gefur mikið af sér til yngri leikmanna bæði sem fyrirmynd en ekki síður sem kennari þar sem hún hjálpar öðrum leikmönnum með æfingar og mataræði en Birna er menntaður íþróttakennari. Birna er ekki bara frábær leikmaður heldur einnig ómetanleg manneskja fyrir Skautafélag Akureyrar að hafa í sínum röðum og ekki síður fyrir allt kvennaíshokkí á Íslandi. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó