Prenthaus

Bjarki Kristjánsson verður verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri

Bjarki Kristjánsson verður verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri

Akureyringurinn Bjarki Kristjánsson verður verslunarstjóri matvöruverslunar Krónunnar sem opnar á Akureyri í byrjun nóvember. Bjarki á að baki sér langa reynslu í verslunarstörfum þrátt fyrir ungan aldur og hann segist vera spenntur fyrir nýja verkefninu.

Í samtali við Akureyrarblaðið segist Bjarki finna fyrir mikilli eftirvæntingu á meðal Akureyringa fyrir opnun Krónuverslunar í bænum. Hann segist hlakka til þess að geta boðið viðskiptavinum á Akureyri upp á fjölbreytt vöruúrval Krónunnar á hagstæðu verði.

„Opnun Krónunnar er í mínum huga stór viðburður fyrir verslun á Akureyri. Vöruúrval Krónunnar er um margt frábrugðið því sem er í boði og hefur verið í boði í matvöruverslunum á Akureyri. Ég held að einmitt vegna þess bíði fólk með eftirvæntingu að fá Krónuverslun norður,“ segir Bjarki í Akureyrarblaðinu.

Nýtt húsnæði Krónunnar á Akureyri er um 2000 fermetrar á stærð. Í húsnæðinu verða einnig tveir nýir veitingastaðir sem munu bjóða upp á „take-away“ þjónustu.

„Annar þeirra er glænýr staður sem við setjum upp í góðu samstarfi við veitingahús á Akureyri. Hinn staðurinn er á vegum veitingastaðar á höfuðborgarsvæðinu. Fjölbreytni í veitingaþjónustu í bænum eykst því líka með tilkomu Krónunnar og verða mikil þægindi fyrir fólk að geta gripið með sér tilbúna rétti samhliða innkaupum í Krónunni,“ segir Bjarki í Akureyrarblaðinu.

Stefnt er að því að opna verslunina í byrjun nóvember á þessu ári. Bjarki segir að áhersla verði lögð á að Krónan muni eiga gott samstarf við norðlenska matvælaframleiðendur og norðlenska birgja.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó