Björgvin Franz og Valgerður mæta aftur í Benedikt búálf

Björgvin Franz og Valgerður mæta aftur í Benedikt búálf

Björgvin Franz Gíslason mætir aftur í söngleikinn um Benedikt búálf sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í febrúar 2021. Söngleikurinn, sem er eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson og Þorvald Bjarna Þorvaldsson, var fyrst settur upp í Loftkastalanum árið 2002. Þá fór Björgvin Franz með hlutverk Benedikts en núna, 19 árum síðar, leikur hann álfakónginn. “Ég er afskaplega spenntur að fá að snúa aftur í sýninguna um Bendikt búálf sem lifir enn góðu lífi enda frábær saga og frábærar tónsmíðar. Þetta verður BARA gaman!” segir Björgvin Franz.

Með hlutverk áfadrottningarinnar fer Valgerður Guðnadóttir en hún lék einmitt sama hlutverk í uppsetningu Loftkastalans og tók þá við hlutverkinu af Selmu Björnsdóttur. Valgerður hefur leikið í fjölda sýninga eins og Söngvaseiði, Töfraflautunni, Rocky Horror, Ávaxtakörfunni, Mömmu klikk og Brúðkaupi Fígarós. Hún hefur einnig sungið inn á fjölmargar plötur og léð ýmsum Disney-persónum rödd sína.

Með hlutverk búálfsins fer Árni Beinteinn Árnason en Dídí mannabarn leikur leik- og tónlistarkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. „Söngleikurinn um Benedikt búálf hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég sá hann fyrst í Loftkastalanum sem barn og það er eiginlega óraunverulegt að feta nú í fótspor Björgvins Franz tæpum 20 árum síðar,“ segir Árni Beinteinn.

UMMÆLI