Vinna og vélar

Boða til íbúafundar vegna Hörgárbrautar

Boða til íbúafundar vegna Hörgárbrautar

Íbúar í Holta- og Hlíðahverfi á Akureyri hafa boðað til íbúafundar í matsal Glerárskóla klukkan átta í kvöld. Farið verður yfir umferðaröryggismál á Hörgárbraut í ljósi umferðarslyss sem varð á gangbraut rétt sunnan við Stórhólt.

Slysið var með þeim hætti að ekið var á 7 ára barn sem var að fara yfir gangbrautina en ökumaður ók yfir á rauðu ljósi.

Auður Ólafsdóttir, skipuleggjandi fundarins, segir að helsta markmið fundarins sé að sýna það að íbúar vilji umbætur og það strax.

„Mér var hugsað til slyss í Reykjavík þar sem keyrt var á barn sem var að fara yfir umferðarljós. Þá var strax brugðist við og borgin kallaði Vegagerðina með sér á íbúafund með íbúum hverfisins. Það tók bara nokkra daga að græja það og svo var strax leitað úrlausna. Hvort þær voru góðar eða ekki er ekki aðalmálið, heldur að talað var við íbúa,“ segir Auður í samtali við Kaffið.

Henni finnst undarlegt að hér hafi lítið heyrst frá bæjaryfirvöldum fyrir utan eina tilkynningu frá skipulagsráði. Í tilkynningunni frá Skipulagsráði Akureyrarbæjar segir að ráðið harmi atburðinn og óski eftir fulltrúa frá Vegagerðinni og umhverfis- og mannvirkjasviði á fund ráðsins til að ræða málið og mögulegar úrbætur.

Auður telur þó að mörgum spurningum sé enn ósvarað. „En hvað svo? Hvað þarf að ræða hjá Skipulagsráði og Vegagerð? Hvaða mögulegu úrbætur er átt við – hverjar eru þær? Mætti ekki ræða við íbúa um þetta? Það eru til úrbætur á gildandi deiluskipulagi frá 2010. Hvað þarf að ræða?“ segir hún.

Hún segir að þar sem ekkert hafi verið talað við íbúa og ekkert frumkvæði frá bænum sé tekið í þeim málum hafi hún ákveðið að athuga hvort vilji væri fyrir slíkum fundi hjá íbúum hverfisins og það hafi svo sannarlega verið.

Íbúar í Holta og Hlíðahverfi hafa lengi barist fyrir því að fá undirgöng eða göngubrú yfir götuna. Umferðarljósum var komið fyrir á þeim stað þar sem ekið var á sex ára dreng síðasta vetur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó