Frá og með haustönn 2021 býður VMA upp á húsasmíðanám í kvöldskóla, ef næg þátttaka fæst. Námið tekur fjórar annir. Miðað er við að nemandi hafi náð 23 ára aldri og/eða hafi viðeigandi starfsreynslu. Nemendur sem hafa undirgengist raunfærnimat fá viðkomandi áfanga metna. Þetta kemur fram á vef skólans.
„Miðað verður við kennslu mánudaga til miðvikudaga frá kl 17:00-21:00 í húsakynnum byggingadeildar VMA. Kennsla hefst 23. ágúst 2021 og stendur í 16 vikur á haustönn. Krafist verður 100% mætingar í náminu. Kennt verður samkvæmt samþykktri námsbraut VMA í húsasmíði og verða bæði verklegar og fagbóklegar námsgreinar kenndar í kvöldskóla og að hluta í dreifnámi. Almennar greinar, t.d. íslensku og stærðfræði, þurfa nemendur að taka í dagskóla, fjarnámi eða hjá símenntunarmiðstöðvum en æskilegt er að almennum greinum sé að mestu lokið. Námið verður verkefnamiðað og farið verður eftir hæfniviðmiðum sem kveðið er á um í ferilbók,“ segir í tilkynningu.
Þetta er í fyrsta skipti sem VMA býður upp á kvöldskóla í húsasmíði þar sem bæði verður fagbóklegt og verklegt nám. Kennarar við byggingadeild VMA munu kenna í kvöldskólanum.
Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, segir að töluvert hafi verið spurt um slíkt nám og því segist hann gera sér vonir um að aðsóknin verði góð. „Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum um slíkt nám og það hefur verið kallað eftir þessu. Hugmyndin er að fara af stað með einn námshóp og að hann klári sitt nám og síðan verði tekinn inn annar hópur að tveimur árum liðnum. En þetta verður bara að koma í ljós, það ræðst af aðsókninni,“ segir Helgi í samtali við vef skólans.
Helgi Valur segir að bakgrunnur þeirra sem hafi áhuga á að nýta sér þennan möguleika til náms í húsasmíði sé afar misjafn, sumir hafi unnið árum saman í faginu og hafi mögulega lokið kjarnagreinum en ekki faggreinum. Aðrir eigi eftir að ljúka bæði bæði almennum og faglegum greinum. „Námið er þannig hugsað að nemendur geti verið í fullri vinnu með því og það skiptist í verklegt og bóklegt. Hér er öll aðstaða fyrir hendi og hana viljum við nýta sem best. Við sjáum fyrir okkur að í ákveðnum faggreinum, t.d. teikningu, þurfi nemendur einnig að vinna verkefni heima,“ segir Helgi Valur og leggur áherslu að enginn afsláttur verði gefinn af mætingu.
Frekari upplýsingar eru hér á heimasíðu VMA. Sótt er um námið í gegnum Innu. Skráningargjald er 65.000 kr á önn. Umsóknarfrestur er til og með 7. júní nk.
UMMÆLI