Boðið upp á endurmenntunarnámskeið fyrir atvinnubílstjóra

Frá undirskrift samnings SÍMEY og Ekils ökuskóla á Akureyri í dag. Frá vinstri: Snjólaug Svala Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Ekils, Grétar Viðarsson eigandi Ekils, Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY og Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri í SÍMEY. Mynd/SÍMEY,

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, SÍMEY, og Ekill ökuskóli á Akureyri hafa skrifað undir samstarfssamning og munu bjóða upp á endurmenntunarnámskeið fyrir atvinnubílstjóra í SÍMEY á vormisseri. Gert er ráð fyrir að námskeiðin hefjist í febrúar og mars á þessu ári.

Umrædd endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra byggja á Evróputilskipun sem Ísland á aðild að á hinu Evrópska efnahagssvæðið. Um er að ræða atvinnubílstjóra sem aka bifreiðum í flokkum D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokkum C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni.

Ökuréttindin eru gefin til kynna með tákntölunni 95 sem gildir í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og veitir bílstjórum aðgang að vinnumarkaði bílstjóra í þessum ríkjum. Ríkjunum er einnig heimilt að nota sérstök atvinnuskírteini með mynd af rétthafa í stað eða ásamt tákntölunni. Skylda til endurmenntunar nær til allra sem halda réttindum til að aka bifreiðum í atvinnuskyni í þessum flokkum. 

Þeim atvinnubílstjórum sem öðluðust ökuréttindi sín í framangreindum flokkum fyrir 10. september 2013 er skylt að hafa lokið fimm endurmenntunarnámskeiðum fyrir 10. september 2018 – eða eigi síðar en fimm árum frá gildistöku ökuskírteinis til ökuréttinda í flokkum D1, D, C1 og C – til þess að fá ökuskírteini sín endurnýjuð.

Almennt gildir nú sú regla að atvinnubílstjórar þurfa að hafa lokið fimm endurmenntunarnámskeiðum – samtals 35 kennslustundum – eigi síðar en fimm árum frá gildistöku ökuskírteina til aukinna ökuréttinda.

Við það er miðað að hvert námskeið taki 7 samtals klukkustundir – m.ö.o. sjö 45 mínútna kennslustundir að viðbættum matar- og kaffihléum.

Umrædd Evróputilskipun nær ekki til bílstjóra sem aðeins aka í eigin þágu og eru ekki í flutningum gegn gjaldi. Þessum bílstjórum er engu að síður velkomið að sækja endurmenntunarnámskeið.

Fjölbreytt námskeið
Endurmenntunarnámskeiðin skiptast í þrjá hluta:

  1. Kjarni: (21 kennslustund) . Vistakstur – öryggi í akstri, lög og reglur og umferðaröryggi – bíltækni. Allir verða að taka kjarna.
  2. Valkjarni: (7/14 kennslustundir). Farþega- og vöruflutningar. Bílstjóri sem er bæði með réttindi til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni hefur val um hvorn hluta valkjarnans hann tekur en hann má líka taka báða. Bílstjóri sem eingöngu er með réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni verður að taka farþegaflutningahlutann og bílstjóri sem eingöngu er með réttindi til vöruflutninga verður að taka vöruflutningahlutann.
  3. Val: (7 kennslustundir). Í vali getur bílstjóri sótt sérhæft námskeið sem varðar starf hans og fellur efnislega undir námskrá Samgöngustofu fyrir flokka aukinna ökuréttinda frá janúar 2005. Sérhæft námskeið í vali skal viðurkennt af Samgöngustofu.

Sem fyrr segir hefjast endurmenntunarnámskeiðin á næstu vikum og verður kennt í SÍMEY, nema annað verði ákveðið. Nú þegar eru komnar námskeiðslýsingar á heimasíðu SÍMEY og þar er hægt að skrá sig á þau.

Rétt er að undirstrika að fyrirtæki geta sótt um að halda námskeið fyrir sína starfsmenn – kjósi þau svo – og eru stjórnendur þeirra hvattir til þess að hafa samband við SÍMEY sem fyrst þannig að unnt verði að gera tímaáætlun fyrir námskeiðin.

Þá skal þess getið að þátttakendur á endurmenntunarnámskeiðunum hafa möguleika á að fá styrk frá sínum stéttarfélögum og fræðslusjóðum til þess að sitja námskeiðin. Þátttakendur geta sótt ráðgjöf hjá SÍMEY um hvernig þeir sækja um fræðslustyrki.

UMMÆLI