Origo Akureyri

Borgarhólsskóli sigurvegari í Fiðring 2024

Borgarhólsskóli sigurvegari í Fiðring 2024

Það var rífandi stemning í HOFI á miðvikudaginn var en þá fór Fiðringur á Norðurlandi fram í þriðja sinn.  Í ár tóku níu skólar þátt og það var frábært að sjá ungmennin blómstra á sviðinu í leik, dansi, söng og hljóðfæraleik. Umfjöllunarefnin sem þau völdu sér voru ekkert léttmeti en þeim liggur greinilega margt og mikið á hjarta.

Sigurvegari 2024 er Borgarhólsskóli, í öðru sæti lenti Oddeyrarskóli (í þriðja sinn!) og í þriðja sæti lenti Glerárskóli.

Kynnarnir Egill Andrason og  Helga Salvör Jónsdóttir héldu uppi góðu stuði milli atriða og virkjuðu áhorfendur í söng og spurningar og prumpukeppni! 

Krakkarnir kusu lagið Skína með Prettiboitjokko sem Fiðringslagið 2024 og hann ásamt Gústa B mætti á svæðið og tryllti lýðinn í dómarahléinu.  Í dómnefnd sátu Marta Nordal fráfarandi leikhússtjóri, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari á sviðslistabraut MA og Guðmar Gísli Þrastarson fulltrúi ungmennaráðs Akureyrar. Ný verðlaun voru kynnt til sögunnar í ár fyrir góða, skemmtilega eða óvænta notkun á íslenskunni og hlaut Oddeyrarskóli þau í ár. Sérlegur dómari fyrir þessa nýju viðurkenningu var Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari í MA.

Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður SSNE afhenti farandbikar Fiðrings en SSNE hefur tryggt fjármagn fyrir Fiðring næstu tvö árin.

Verkefnastjórar Fiðrings eru strax farnar að hlakka til Fiðrings 2025.

UMMÆLI

Sambíó