Borgin mín – London

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við fáum að heyra sögur af borgum víðsvegar í heiminum frá Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Að þessu sinni segir Elís Orri Guðbjartsson okkur frá stórborginni London í Englandi.

Sjá aðrar borgir hér.

Elís Orri Guðbjartsson

 • Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég bý í Lundúnum vegna þess að ég stunda meistaranám við London School of Economics. Valið stóð á milli nokkurra háskóla, víðsvegar um heiminn, en ég endaði á því að velja LSE og spiluðu þar tvær ástæður stóra rullu. Í fyrsta lagi stendur skólinn ótrúlega vel að vígi í alþjóðlegum samanburði og er á lista yfir 25 bestu háskóla í heimi, og  deildin mín sú þriðja besta í heimi [http://www.lse.ac.uk/News/Latest-news-from-LSE/2017/March-2017/LSE-ranked-second-in-the-world-for-social-sciences]. Í öðru lagi er námið bara eitt ár í stað tveggja, eins og í svo mörgum háskólum utan Bretlands. Það þýðir að það tekur mig einungis ár að komast á vinnumarkaðinn og því farinn að afla mér bæði tekna og starfsreynslu fyrr en ella.

Ég get hreinlega ekki beðið að byrja að borga niður allar mínar skuldir sem ég hef sankað að mér síðastliðin ár..

 

 • Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég bý í agnarsmáu herbergi á stúdentagörðum í Shoreditch-hverfinu ásamt rúmlega 350 öðrum meistaranemum við sama skóla. Hér hef ég örfáa fermetra út af fyrir mig og sér baðherbergi, sem mér þykir öllu máli skipta, og deili eldhúsi með sex öðrum. Þegar ég stundaði nám við Háskóla Íslands bjó ég einnig á stúdentagörðum þar sem ég deildi eldhúsi, en þá með níu öðrum, og því tel ég mig vera orðinn flestu vanur.

Það vill svo skemmtilega til að af okkur sjö sem deilum eldhúsinu erum við bara þrjú sem notum það, og ég manna mest. Hin fjögur borða allar sínar máltíðir annars staðar og því er nóg pláss fyrir okkur þrjú, en ef það væri ekki raunin gæti ég trúað að það væri ansi þröngt á þingi.

Ég reyndi eftir fremsta megni að komast að á stúdentagörðum, þar sem ég vissi að það væri langbesta leiðin til að kynnast fólki og eignast vini. Þó þetta sé langt frá því að vera paradís á jörðu og mjög margt sem betur mætti fara, sérstaklega þegar aðstæðurnar eru bornar saman við stúdentagarðana heima, kann ég virkilega vel við mig.

Leigan er þó ansi mikil, eins og e.t.v. gefur að skilja, og um tvöfalt dýrari en samskonar herbergi og ég leigði á Stúdentagörðunum í hjarta Reykjavíkur.

Stúdentagarðarnir

 

 • Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Ef allt er tekið með í reikninginn, þá er það alveg klárlega dýrara að búa hér en á Íslandi. Sérstaklega ef við miðum við að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Leigan hér í Lundúnum er stjarnfræðilega há og stærsta ástæða þess að ég hef ekki áhuga á að búa hér að námi loknu.

Ef leigunni er haldið utan við jöfnuna, þá er ég að eyða minna hér en ég gerði í Reykjavík. Það má þá fyrst og fremst skrifa á fall pundsins eftir að Bretar ákváðu að ganga úr Evrópusambandinu, en þá féll pundið úr tæplega 200 krónum í rúmlega 135. Það munar um minna fyrir fátækan námsmann!

Sjá einnig: Furðulegt háttalag fyrirtækja um hátíðirnar.

Á meðan almenningur hér, sem er almennt mjög hlynntur Evrópusambandinu, grætur sáran, get ég ekki annað en glott við tönn – enda spara ég fúlgur fjár á glapræði þeirra bresku.

 

 • Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef lítið sem ekkert gert. Hérna stunda ég mitt nám og er að frá morgni og fram á kvöld, jafnt virka daga sem og um helgar, og hefur því verið lítið flakk á mér.

Aftur á móti, þegar ég hugsa til Lundúna dettur mér alltaf Big Ben og London Eye fyrst í hug, og fljótlega þar á eftir koma staðir eins og Breska þingið, Buckingham höll, Lundúnarturn, St. Paul’s dómkirkjan, Downingstræti 10.

 • Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Þegar foreldrar mínir heimsóttu mig í desember síðastliðnum fundu þau lítinn veitingastað í Kensington-hverfinu, að mig minnir, sem var alveg frábær. Ég man þó ekki hvað staðurinn heitir, eða hvar hann er – en ef ég væri á svæðinu myndi ég alveg pottþétt rata inn rétta hliðargötu! Hann var geggjaður.

Ég átta mig sömuleiðis á því hvað þetta er ótrúlega gagnslaus ábending, en ef þið rekist á mig í Kensington-hverfinu þá lóðsa ég ykkur að staðnum með glöðu geði!

 • Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Á hverju sunnudagskvöldi förum við nokkrir saman á pizzastað í nokkurra mínútna fjarlægð og fáum okkur að borða saman og ræðum heimsmálin. Vegna anna eyða flestir nemendur öllum dögum á kafi í bókum og gefst lítill tími til að slæpast. Ég kann þó mjög vel við hefðina sem hefur skapast og gott að geta aðeins hreinsað hugann fyrir nýja viku.

Að sama skapi förum við einnig nokkur aðra hverja viku á nálægan sushi stað, en alltaf hálftíma fyrir lokun er helmingsafsláttur af öllu. Það þýðir að við getum keypt gámafylli af sushi fyrir örfáar krónur.

Pizza Union og Itsu fá því hiklaust mín atkvæði.

Sjá einnig: Plastpokalaus sveitarfélög.

 • Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Já, eins og allflestir Íslendingar kunni ég enskuna áður en ég mætti á svæðið. Ég finn þó gríðarlega mikinn mun á því hvernig ég beiti mér, jafnt munnlega sem og í rituðu máli, eftir að fór að tala málið upp á hvern einasta dag.

 • Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Nei, ég get ekki sagt að ég hafi orðið var við eitthvað menningarsjokk. Það sem mér þótti þó ansi erfitt fyrstu tvær vikunar var að horfa í rétta átt áður en ég óð yfir göturnar. Sömuleiðis fannst mér ansi fyndið hvað staðalímyndin af Bretanum að koma við á barnum í einn jafnvel tvo kalda á leiðinni heim úr vinnu er dagsönn. Svo alla jafna er fátt um fína drætti um helgar, því þá nennir fólk ekkert út – enda búið að vera að alla vikuna.

– Hvað einkennir heimamenn?

Þó ég umgangist ekki mikið af heimamönnum, eins furðulega og það hljómar, eru þeir sem ég hef átt í samskiptum við allir mjög kurteisir og almennilegir og sýna manni mikinn áhuga, sem er þó ekki bundið við Breta frekar en önnur þjóðerni. Ég held þó að það sem sé meiri ríkjandi í Bretlandi en á mörgum öðrum stöðum er hvað húmorinn er baneitraður. Hér er ekki hugsað sig tvisvar um og yfirleitt farið langt yfir strikið. Eða eins og Joey í Friends myndi orða það: „The line is a dot to them!“

Sömuleiðis eru Bretarnir víst mjög lokaðir tilfinningalega, í það minnsta að eigin sögn, og ekki mikið í að tjá þær opinberlega. Við kvöddum einn prófessor fyrir skömmu, sem er að láta af störfum eftir fleiri tugi ára, og færðum honum kampavínsflösku sem eins konar þakkarvott, enda er hann afbragðsgóður kennari og gríðarlega vel liðinn. Er hann var beðinn um að halda stutta tölu sagði hann einfaldlega: „ This is getting sentimental and as you know the Brits aren’t sentimental.“

 • Helstu kostir borgarinnar?

Veðurfarið finnst mér vera mjög gott. Lítið um rigningu og vind og frekar milt og þægilegt veður alla jafna. Að sama skapi er nánast undantekningalaust mikið hlýrra heldur en heima.

Að sama skapi eru samgöngurnar mjög góðar. Bæði lestir, neðanjarðarlestir og strætóar. Sjaldan þarf maður að bíða mikið lengur en fimm mínútur ef svo óheppilega vill til að maður rétt missir vagninum.

Matur er sömuleiðis mjög ódýr, bæði í matvöruverslunum og sérstaklega á veitingastöðum.

 

 • Helstu gallar borgarinnar?

Lundúnir er dálítið stór borg. Og með dálítið stór á ég við risastór. Að koma sér á milli staða getur því oft verið gríðarlega tímafrekt. Það er því oft erfitt að mæla sér mót ef þeir sem ætla að hittast búa á víð og dreifð um borgina.

Sömuleiðis eru allir hérna að drífa sig. Ég þurfti að bæta gönguhraðann minn svo um munaði þegar ég flutti hingað, enda var ég nánast genginn niður fyrstu daganna.

Einn kennarinn minn úr HÍ, sem ég kýs að nafngreina ekki, var með þá kenningu að í stórborgum, sbr. Lundúnum, drifu einstaklingar sig vegna þeirra tækifæra sem þar væru á hverju strái. Þar sem mikil tækifæri væri að finna, þar drifi fólk sig – því ef það væri að slæpast gæti það misst af mögulegum tækifærum. Aftur á móti, á stöðum þar sem tækifæri væru af skornum skammti þyrftu einstaklingar ekkert að drífa sig – því það væri ekki að missa af neinu. Hvort kenningin standist prófanir þykir mér ólíklegt, en af henni að dæma er í það minnsta heill hellingur af tækifærum á svæðinu.

 • Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Nei, ég held að ég komi frekar í styttri heimsóknir í framtíðinni. Eins ágætlega og ég kann við borgina, þá kann ég betur við mig á smærri stöðum. Það sem einkennir Lundúni er að einstaklingar leigja ýmist með margir saman, vegna hás leiguverðs, nálægt miðbænum, eða búa í úthverfunum og neyðast því til að byrja daginn á löngu ferðalagi inn í borgina. Það heillar mig ekkert sérstaklega að eyða fullt af pening í leigu á mánuði og búa með fjölda manns eða borga fullt í samgöngur á mánuði byrja hvern einasta dag á löngum lestarferðum.

Það þarf því eitthvað mikið að gerast til að ég setjist hér að!

Sambíó

UMMÆLI