Borgin mín – Los Angeles

Borgin mín – Los Angeles

Unnur Anna Árnadóttir

Unnur Anna Árnadóttir

Borgin mín er nýr liður á Kaffinu. Þar komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Unni Önnu Árnadóttur, 21 árs Akureyring, til að kynna okkur fyrir Los Angeles.

 

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég er að læra innanhúsarkitektúr hérna í Los Angeles. Mig langaði að læra innanhúsarkitektúr einhverstaðar í Bandaríkjunum, einhverstaðar í spennandi borg, þar sem veðrið væri gott yfir allt árið. Ég fór því inn á kilroy.is og þeir ráðlögðu mér að sækja um hérna í LA.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég leigi íbúð í fjölbýli í UCLA háskólahverfi sem heitir Westwood. Lítið, öruggt og krúttlegt hverfi sem minnir pínu á Akureyri. Ég leigi með 3 öðrum stelpum og deili herbergi með einni. Leigan er svona svipuð eins og að leiga á íbúð miðsvæðis í Reykjavík, ótrúlega dýr. En ég vildi samt borga aðeins meira fyrir að vera í öruggu hverfi. Ég þyki samt víst alveg heppin með verð miðað við staðsetningu.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
LA er þekkt fyrir að vera mjög dýr borg, miðað við annarsstaðar í Banaríkjunum. En ef við miðum við Ísland, þá finnst mér vera svipað dýrt að búa í LA eins og að búa á Íslandi. Leigan er á flestum stöðum mjög dýr og að versla í matinn er svipað dýrt og heima. Hinsvegar er ódýrara að fara út að borða hér en heima og ég skil loksins afhverju Bandaríkjamenn eru svona þekktir fyrir að elda aldrei og panta alltaf mat! Ódýrt, fljótlegt og úrvalið endalaust. Fötin virðast alltaf ódýrari svona við fyrstu sýn, en maður gleymir alltaf að í Bandaríkjunum þarf maður sjálfur að bæta skattinum ofan á, það stendur ekki á verðmiðanum. Eftir að skatturinn er kominn á, er verðið svipað og heima.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Ég veit varla hvar ég á að byrja, fræg kennileiti Los Angeles eru svo mörg. Ég myndi segja að Hollywood skiltið væri nokkuð ofarlega á listanum, og Hollywood walk of fame, þar sem stjörnurnar eru á gangstéttunum og alltaf eitthvað í gangi. Santa Monica Pier er líka frægt kennileiti í Los Angeles, eða í Santa Monica. Beverly Hills skiltið er líka frægt kennileiti og þegar maður keyrir framhjá eru alltaf svona 100 túristar að taka myndir af sér fyrir framan það. Túristastaðirnir eru klárlega Hollywood walk of fame, það er stundum ekki hægt að labba þar, túristarnir eru svo margir. Eins með Santa Monica Pier. En svo er líka vinsælt meðal túrista að fara i Universal Studios, Six Flags skemmtigarðinn, Disneyland, skoðunarferð um göturnar þar sem frægt fólk býr o.fl. Svo er líka ótrúlega gaman að leigja sér hjól eða rölta bara meðfram allri ströndinni, alltaf líf og fjör þar og ótrúlega fallegt útsýni.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Minn uppáhaldsstaður er strönd á Malibu sem flestir halda að sé einkaströnd en hún er það í rauninni ekki. Þannig að það eru ótrúlega fáir þar, en ótrúlega fallegt að vera, sérstaklega þegar sólin er að setjast.

Ég mæli líka með Malibu Wine Safari, ótrúlega skemmtileg upplifun, fallegt útsýni og alls ekki margir sem vita af þessu.

Unnur á Malibu ströndinni

Unnur á Malibu ströndinni


– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Uppáhalds veitingastaðurinn minn er ótrúlega lítill og krúttlegur sushi staður í Westwood Village sem heitir Tomodachi Sushi. Hann kemur mér alltaf jafn mikið á óvart með góðu sushi-i. Ég á líka uppáhaldsísbúð sem ég verð líka að mæla með fyrir alla ísþyrstu Íslendingana. (Eiginlega smá fyndið hvað Íslendingar eru sjúkir í ís, þetta er alls ekki svona hérna). Ísbúðin heitir Diddy Riese og er líka í Westwood Village. Þetta er lítil ísbúð en venjulega er svona 9 metra löng röð út úr henni. Þar er hægt að fá ískúlu-samlokur með hrikalega góðum smákökum, sem eru jafnvel betri en subway kökurnar. Smákaka-ískúla-smákaka – og hver samloka kostar bara $2 sem eru ca 250 krónur!

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku? –
Flestir íslendingar kunna nú enskuna nokkuð vel, og það kemur öllum alltaf rosalega á óvart hversu vel við kunnum ensku. Það eru samt svona litlu hlutirnir í tungumálinu sem ég er enn að læra. Um daginn sagði ég til dæmis “easters” sem fleirtöluorð (eins og páskar eru á íslensku). Þá lærði ég það, eftir mikið hláturskast hjá vinum mínum, að maður segir víst bara “easter” en ekki “easters”…. Kennararnir mínir eru líka mjög næs og leyfa mér að hafa símann uppi í tímum svo ég geti google translate-að þau orð sem ég skil ekki.

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst?
Já heldur betur, ég hélt ég hefði undirbúið mig vel fyrir að þurfa að venjast annari menningu en þetta reyndist meira krefjandi en ég bjóst við. Ég er alveg enn þá að venjast menningunni og reyni mitt besta að aðlagast henni.

Umferðarteppa. Hér leggur fólk af stað ca 2 tímum áður en það á að mæta, en mæta samt seint. En að mæta seint í LA er líka bara allt í lagi. Þú kennir bara umferðinni um og það er tekin sem gild afsökun. Það er líka rosalega margt heimilislaust fólk hérna. Manni er strax kennt að aldrei að gefa þeim neitt, sem mér finnst rosalega erfitt. En mjög hátt hlutfall af heimilislausu fólki hérna í LA kýs bara að vera heimilislaust, það er alltaf svo hlýtt að það gerir ekkert til, og margt af þessu fólki á víst alveg nóg af pening.

Mesta menningarsjokkið var samt eiginlega að sjá hversu ótrúlega langt Bandaríkin eru á eftir Íslandi í mörgu. Ég sjálf hef kannski fundið mest fyrir því hversu mikið þeir eru á eftir í jafnrétti kynjanna. Hvert sem konur hérna fara, finna þær fyrir mönnum vera að horfa á sig. Sumir kalla “smile”, “looking good”, “Turn around for me” eða eitthvað svoleiðis. Maður er alltaf óöruggur bara að mæta karlmönnum hérna því maður veit aldrei hvað þeir gætu gert. Mér fannst líka sérlega óþægilegt þegar öllum stelpum í Háskólanum mínum voru gefnar “rape whistles” og var kennt hvernig ætti að bregðast við ef þær yrðu fyrir árás, en enginn fékk hinsvegar fræðslu um að að kynferðisafbrot væri bara eitthvað sem fólk ætti ekki að fremja. En þetta venst samt eins og flest annað, því miður. Ég hef lært að labba aldrei neitt ein eftir klukkan 21 og ef ég neyðist til þess, þá hringi ég í einhvern eða jafnvel þykist tala í símann, svona ef ég mæti einhverjum. Hverfið mitt er sem betur fer mjög öruggt en maður er víst aldrei of varkár. 

Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Algjörlega! Flest sem ég taldi upp hér að ofan finnst mér vera gjörólíkt íslensku menningunni.
Mig langar samt að nefna eitt mjög jákvætt við bandaríska menningu sem mér finnst ólíkt þeirri íslensku. Bandaríkjamenn hrósa ókunnugu fólki ótrúlega mikið. Ef þú ert í nýjum fötum og ferð í þeim út, þá er bókað að einhver muni hrósa þér fyrir fötin og jafnvel spurja hvar þú fékkst þau. Ef fólki sem þú bara rétt svo kannast við finnst hárið þitt fínt í dag eða eitthvað sem þú ert að gera vera frábært, þá munu þau segja þér það. Á Íslandi, hrósar maður ekki. Maður lítur bara á fólkið, hugsar ,,fín” og svo skellir maður kannski bara einu “like-i” á instagram. Ég hef mikið verið að vanda mig að hrósa fólki meira og verð betri með hverjum deginum.

15033921_10211417459138058_497316513_o

Malibu wine safari

– Hvað einkennir heimamenn?
Fólkið hérna í LA er flest allt rosalega opið, fjölbreytt og hjálpsamt. Einkennandi fyrir LA heimamenn er samt líka að eiga hrikalega flotta bíla, alltaf að klæða sig flott (mætir aldrei í skólann í kósíbuxum) og að eiga ótrúlega flott hús. Flestir hafa líka leikið í einum eða tveimur þáttum eða eiga frænku/frænda/vin/vinkonu sem er í skemmtanabransanum. Já og þau klæða sig í úlpur, húfur og vettlinga þegar hitastigið ,,dettur niður” í 17 gráður.

– Helstu kostir borgarinnar?
Veðrið, það er allaf eins, alltaf sól, logn og gott hitastig, klárlega jákvætt og góð tilbreyting fyrir Íslending. Það er alltaf nóg um að vera í Los Angeles og alltaf hægt að gera eitthvað skemmtilegt, hvort sem það er á laugardegi eða mánudegi.

– Helstu gallar borgarinnar?
Umferðin er svo mikil og borgin svo stór að það tekur allt svolítið langan tíma. Svo finnst mér kannski bara fjarlægðin frá Íslandi smá galli, tímamismunurinn er í augnablikinu 7 tímar og fer í 8 tíma næsta sunnudag, sem gerir það stundum erfitt að spjalla við fólkið manns heima.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Sko út af fjarlæðginni frá Íslandi, þá nei, annars þá já. Mig langar allavega til að eiga sumarhús hérna í framtíðinni og heimsækja eins oft og ég get. Það er eitthvað við LA sem maður verður bara ástfangin af og ég held að ég muni alltaf hafa smá löngun í að koma aftur hingað, svona þegar ég verð flutt frá borginni.

UMMÆLI

Sambíó