beint flug til Færeyja

Borgin mín – Lundur

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Jenný Gunnarsdóttur til að segja okkur frá Lundi í Svíþjóð þar sem hún býr ásamt kærasta sínum.

Hér má sjá aðrar borgir sem fjallað hefur verið um.

IMG_2281

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég bý í Lundi með kærastanum mínum. Ég stunda nám í kynjafræði í háskólanum hér, en kærastinn minn er í háskólanum í Malmö, korters lestarferð í burtu. Við völdum Lund þar sem okkur langaði að flytja erlendis, nám sem við höfðum áhuga á var kennt hérna og Lundur dró mig til sín þar sem ég bjó þar með fjölskyldunni minni 2006-2008 á meðan mamma mín var í námi. Lund er líka mjög miðsvæðis uppá samgöngur að gera, örstutt í Kaupmannahöfn, Pólland, Þýskaland og fleira.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Við erum að leigja á almenna markaðinum þar sem það er mjög erfitt að fá stúdentaíbúðir í Lundi, sérstaklega fyrir tvo. Það eru 41.000 nemendur í háskólanum í Lundi, en íbúar í bænum eru um 100.000, svo nemendur eru stór hluti af bæjarlífinu og markaðurinn tekur mikið mið af þeim. Við vorum heppin að leigja íbúð „second hand“, þeas leigja tímabundið með öllum húsgögnum, hita, rafmagni osfrv. Við komumst að því að leigan er ódýrari heldur en á stúdentagörðunum í Reykjavík, svo við erum frekar sátt. Sumir neyðast þó til að sætta sig við mjög háa leigu þar sem getur verið erfitt að finna íbúð.

Jenný býr í Lundi ásamt Ottó kærasta sínum

Jenný býr í Lundi ásamt Ottó kærasta sínum

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Nei, það er frekar ódýrt hérna. Ekkert hræ-ódýrt, og það fer svolítið eftir því hvað maður er að versla. En við finnum samt töluverðan mun, sérstaklega núna þegar gengið er hagstætt.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Lundur á sér langa sögu, eða frá því um 900 og var lengi höfuðstaður kirkjunnar í Skandinavíu og Eystrarsaltssvæðinu. Háskólinn er einnig stór hluti af bænum, 350 ára gamall og eru dómkirkjan og háskólabyggingarnar í miðbænum einkenni bæjarins. Það er mjög gaman að rölta um gamla bæinn, en hann er frekar afmarkaður og auðveldur að skoða. Að rölta í gegnum Stadsparken og Listigarðinn sem líka eru nálægt miðbænum er vinsælt og sérlega gaman í góðu veðri.

IMG_2541

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Mér dettur ekki í hug neinn einn leyndur staður, en mæli með að skoða litlu þröngu göturnar í miðbænum og útivistarsvæðin á hjóli. Þannig uppgötvar maður staði sem ekki eru nefndir á TripAdvisor.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Ég verð að nefna falafel og kebabstaðinn sem ég hef lagt ástir á, Salehan við Botulfsplatsen. Lundafalafel er líka klassík. Meira í anda Lunda-nemanda verður það ekki! Annars hef ég alltaf fengið góðan mat á Stäket, ítölskum veitingastað í eldgömlu húsi í miðbænum og mæli með honum!

IMG_2528

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég lærði tungumálið vel þegar ég bjó hérna sem krakki og náði að viðhalda því nokkuð vel þessi 10 ár með heimsóknum, lesa sænskar bækur osfrv. Ég var mjög fljót að ná tökum á málinu þegar ég kom aftur núna í haust. Sænska er frekar létt fyrir íslendinga, með okkar bakgrunn í dönsku. Ef maður stenst það að bregða fyrir sig enskunni kemur sænskan fljótt.

– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Nei, ekkert sjokk í þeirri meiningu, enda eru skandinavíulöndin frekar lík í stórum dráttum. En reglur eru reglur í Svíþjóð og fólk er mjög stundvíst! Stundum getur það tekið á taugarnar þegar maður þarf að hlaupa í hringi í kringum regluverkið fyrir hluti sem ganga hraðar og einfaldara fyrir sig heima. Svo var engin Dominos pizza, en það er sem betur ferið búið að opna stað í Malmö!

– Hvað einkennir heimamenn?

Ég hef heyrt frá svíum sjálfum, öðrum íslendingum og öðrum erlendum að svíar séu lokaðir og kaldir. Kannski er ég bara svona heppin, en mín upplifun hefur alltaf verið önnur; að fólk tekur manni opnum örmum, vill sjá til að manni gangi vel og er áhugasamt um Ísland. Heimamenn eru kurteisir og hjálpsamir að mínu mati, en vissulega sest fólk ekki við hliðina á ókunnugum í strætó, rétt eins og heima.

IMG_2477

– Helstu kostir borgarinnar?

Mér finnst svo notalegt hvað borgin er lítil en samt er nóg af kaffihúsum, búðum og afþreyingu. Maður hefur þessa smábæjar stemmningu, en Malmö með sína 300.000 íbúa er bara 15 mín í burtu og Kaupmannahöfn með allt það sem hún hefur uppá að bjóða rúman hálftíma í burtu með lest. Að vera nemi í borginni er líka frábært, nemendur reka sjálfir skemmtistaði, bari og kaffihús bara ætluð nemum og hér er mikið og sterkt félagslíf, allir geta fundið eitthvað fyrir sig í háskólafélagslífinu.

– Helstu gallar borgarinnar?

Stundum getur smábæjarfílingurinn orðið of mikill, til dæmis þegar allt lokar í miðbænum frekar snemma á virkum dögum og sunnudagar eru mjög rólegir. Sé maður ekki nemi er líka framboð á börum og skemmtistöðum frekar lítið, miðbærinn er rólegur. En Malmö er það nálægt að það er ekki vandamál.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Mér líður virkilega vel í Lundi, finnst stærðin henta mér og stemmningin notaleg. Ég elska að labba framhjá mörghundruð ára gömlum byggingum á leiðinni í háskólann og geta tekið lest til Kaupmannahafnar þegar mig langar. Ég held að ég muni enda heima á Íslandi, en Lundur mun alltaf vera mitt annað heimili.

Sambíó

UMMÆLI