Borgin mín – Orlando

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni segir Þórunn Þöll Egilsdóttir okkur frá Orlando þar sem hún býr ásamt Jóhanni Guðmundssyni kærasta sínum. Orlando er borg í Flórída fylki Bandaríkjanna.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Það má segja það hafi verið fyrir algjöra tilviljun að ég hafi endað í Orlando af öllum stöðum. Ég varð ástfangin sumarið 2012 og það vildi bara þannig til að kærastinn átti rætur að rekja til Orlando.  Foreldrar hans settust að fyrir nokkrum árum og hann sjálfur búinn að búa þar og stunda nám. Við heimsóttum borgina jólin 2012 og ég varð ástfangin í annað sinn. Ég var staðráðin að fara út í nám áður en ég kynnist Jóhanni, og eftir að ég heimsótti Orlando var ekki aftur snúið. Í dag stunda ég nám við University of Central Florida þar sem stefni á að klára bachelorinn á félagsvísindasviðinu. Skólinn er lyginni líkastur, þar stunda tæplega 100.000 nemendur nám. Ef þú þjáist af víðáttubrjálæði er Orlando kannski ekki staðurinn fyrir þig. Ég segi það nú bara því borgin er mjög stór, og umhverfið getur verið örlítið ruglandi. En það er eflaust af því þér finnst eins og það séu allar götur eins og ef þú ert að heimsækja borgina í fyrsta sinn þá veistu ekkert hvað snýr upp né niður. Ég lofa, ef þú stoppar lengur en í 4 daga þá ferðu alveg að átta þig. Sjálf fann ég fyrir mikilli frelsistilfinningu. Ekki skemmir nú fyrir að þarna er sumar allt árið í kring, stutt keyrsla á ströndina og næturlífið í downtown Orlando er stórskemmtilegt.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Við höfum verið á leigumarkaðnum í Orlando síðan við byrjuðum okkar nám 2014 en hann er talsvert frábrugðinn leigumarkaðnum á Íslandi. Íbúðarhverfin í Orlando eru öll einkarekin, og innifalið í leiguverði er gjarnan aðgangur að sundi, líkamsrækt, og annarri þjónustu. Við höfum búið í bæði 2ja og 3ja herbergja íbúðum og leigan verið mjög sanngjörn miðað við staðsetningu, gæði og þjónustu. Þetta er algjör lúxus miða við það sem námsmönnum heima á Íslandi er boðið upp á. Við höfum bæði verið miðsvæðis í Orlando og í úthverfi.

UCF Mascot Knights

 Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Svo sannarlega ekki. Fyrir utan sólina, sandinn og sumarið árið í kring þá er það eflaust gengið sem dregur Íslendingana til Flórída, sem og marga aðra. Það er einstaklega hagstætt að taka sér frí, fá smá lit og fylla fataskápinn í leiðinni. Maturinn að mínu mati er hræódýr miða við Ísland, eins og margt annað. Ef þú sest niður á veitingastað í Orlando, í guðanna bænum pantaðu þér lítinn skammt. Þú sparar þér ekki bara pening heldur sleppur við að sitja uppi með afganga út vikuna.

 

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Tvímælalaust skemmtigarðarnir. Universal Studios, Disney, SeaWorld og Legoland er án efa það helsta sem dregur túristana til Orlando. Fyrir utan ströndina og verslunarklasana. Það er algjörlega klikkuð upplifun að fara á þessa staði.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Celebration Town Center. Þetta er bær í Orlando og þar er alveg einstaklega fallegt, og reglulega eru einhverjir skemmtilegir viðburðir.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Ég get eiginlega bara alveg ómögulega svarað þessari spurningu. Ameríka flæðir í mat og það er allt gott. Ég hef bara aldrei fengið vonda máltíð í Orlando. Það sem stendur upp úr í minninu á þessari stundu er Buffalo Wild Wings. Ef þig langar í skemmtilega sport stemningu, kaldan bjór og vængi þá er þessi staður klárlega málið fyrir þig. Ósvikin ást mín á Starbucks er þess virði að nefna. Ég bara elska kaffið þar.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Já, ég er mjög þakklát fyrir það að 99% heimamanna tali ensku. Ég held ég hafi einu sinni á tæpum 4 árum lent á spænskumælandi manneskju í Orlando sem talaði ekki stakt orð í ensku. Lenti bara þannig skemmtilega á að það var Uber bílstjórinn minn og ég átti eftir að sitja í 20 mínútur í bíl með honum. Ég held ég hafi aldrei lagt mig jafn mikið fram í að eiga mannleg samskipti án árangurs.  Síminn minn var líka batteríslaus þannig undir lok ferðar þjáðist ég af miklum hálsríg eftir að horfa útum bílrúðuna mín megin til að reyna forðast augnsamband og óþægilegar þagnir. En það eru nú flest allir Íslendingar enskumælandi þannig það er lítið mál fyrir fólk að ferðast þangað og bjarga sér.
Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Já Orlando er talsvert frábrugðið litla Íslandi þar sem allir þekkja alla. Það er svo mikið af allskyns fólki og pínu skrítið fyrir litla Akureyrarstelpu að reyna feta sig í stórborgarlífinu. En það sem ég er svo þakklát fyrir er að það eru allir svo kurteisir og nágrannakærleikurinn svo mikill.

Hvað einkennir heimamenn?

Það sem stendur helst upp úr er frjálslegur klæðnaður, kurteisi, gleði, og nágrannakærleikur. Ameríkönum finnst líka mjög skemmtilegt að borða.

Helstu kostir borgarinnar?

Borgin er svo stór, og svo mikið að sjá og skoða. Það er ódýrt að leigja, maturinn góður, skemmtanalífið frábært; eitthvað fyrir alla, og mikið líf og gleði. Eins og ég tók fram hér áðan þá er veðurfarið og stuttar vegalengdir á ströndina stór plús.

Helstu gallar borgarinnar?

Ég á dálítið bágt með þessa spurningu.  Mér finnst náttúrulega allt frábært við þessa borg. Kannski fyrst og fremst er lítið um almennings samgöngur eins og strætó eða rútur.

Ég bara hvet ykkur eindregið að gera ykkur ferð til Orlando og upplifa það sem er hægt að skoða og sjá. Það er svo margt!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó