Listasafnið gjörningahátíð

Borgin mín – Salzburg

Borgin mín – Salzburg

nanna-1

Nanna Gunnarsdóttir

Borgin mín er nýr liður á Kaffinu. Þar komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Nönnu Gunnarsdóttur, 25 ára háskólanema, til að kynna okkur fyrir Salzburg í Austurríki.

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég er að læra stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og ákvað að prufa eitthvað nýtt og fara í skiptinám hér við University of Salzburg. Frá því ég var yngri hef ég hrifist verulega af Ölpunum og þá sérstaklega Austurríki og öllu sem landið hefur upp á að bjóða. Líklega er það vegna mikils áhorfs á The Sound of Music í æsku og kórferðanna á unglingsárunum á þessar slóðir. Eins bjó ég tímabundið árið eftir menntaskóla í smábænum Sölden sem er í Tyrol í Austurríki. Eftir dvölina þar var ég staðráðin í að ég myndi einn daginn flytja til landsins annaðhvort tímabundið eða þá að setjast að. Salzburg var eina borgin í Austurríki sem var í boði í náminu mínu og mér fannst það fullkominn valkostur ef litið er til áhugamála minna. Ef þú blandar saman skíðum, söng og drykkju er útkoman geggjuð.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar?  Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Í augnablikinu bý ég á einskonar stúdentagörðum þar sem ég er með mitt eigið herbergi sem eru einhverjir 10 fermetrar en ég deili pínulitlu eldhúsi og ennþá minna baðherbergi með annarri manneskju, sem ég hef þó ekki orðið vör við ennþá. Mér var tjáð að ég myndi fá,,fully furnished” íbúð sem gladdi mig verulega en þegar ég mætti svo loksins á staðinn voru dýna og skrifborð það eina sem við mér blasti. Ég gerði því verulega góð kaup í heilum þremur IKEA ferðum og er búin að innrétta slotið. Þessa dagana er ég að vinna í því að fá að færa mig yfir í einstaklingsíbúð svo ég geti nú boðið gestum og gangandi næturgistingu án alls vesens (og vonandi fengið örlítið meira svefnpláss). Ég var svo heppin að fá íbúð á þessum görðum en þeir eru á besta stað sem völ er á í borginni. Ég held að tæplega 90% af þeim sem eru í skiptináminu hafi sótt um hér í húsinu en við erum ekki fleiri en 10 af þeim hóp sem enduðum hér. Það tekur mig um það bil fimmtán mínútur að labba í gamla bæinn, þar sem nánast allt fer fram í borginni sem eitthvað er varið í. Ef ég labba 10 mínútur í gagnstæða átt er svo aðal lestarstöðin staðsett, svona ef ég fæ þá hugdettu að skjótast í smá frí eða annað slíkt.

Leigan hér er töluvert lægri en það sem gengur og gerist heima sem er ekkert nema jákvætt. Ég borga rúmlega 50 þúsund hérna sem telst vera virkilega vel sloppið í samanburði við aðrar borgir víðs vegar um heim. Fólki sem ég hef kynnst bregður þegar ég segi því frá meðalleiguverði á Íslandi. Hér eru margir vinir mínir með mjög rúmgóð og stór svefnherbergi sem þeir hafa útaf fyrir sig, plús svo sameiginlegt rými sem deilt er með öðrum og eru að borga frá ca 40-60 þúsund á mánuði.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Það fer virkilega eftir því hvernig lífstíl þú velur þér að lifa hver niðurstaðan er og auðvitað hversu mikið þú telur vera nauðsyn til að komast af. Svona fyrir meðalmanneskjuna sem leyfir sér af og til er það frekar ódýrt svona í samanburði við heimalandið, sem getur verið virkilega hættulegt.
Það er alls ekki dýrt að fara út að borða ef við berum okkur saman við Ísland og á endanum (þar sem ég er ein) kemur það að vissu leyti út á sama stað að kaupa sér amk. eina máltíð á dag og að elda heima fyrir einn, sem er líka ekki mikil skemmtun að mínu mati. 
Fyrir vini mína sem koma annarsstaðar að er það hinsvegar allt annar handleggur og sérstaklega fyrir þá sem koma ekki frá vestanverðri Evrópu. Fyrstu dagana heyrði ég ekkert nema hvað allt væri dýrt og að Salzburg væri virkilega hátt verðlögð í samanburði við aðrar austurrískar borgir. Eins leyfa vinir mínir mér oft að heyra það hversu dýrt sé að gera hitt og þetta. Það er samt bara flott hvað þau eru meðvituð um peningaeyðslu.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar og mestu túristastaðirnir?
Gamli bærinn, eða Aldstadt eins og hann er kallaður, er miðpunktur alls í borginni. Yfir honum liggur fjall sem sker sig í gegnum borgina en þar efst uppi gnæfir yfir tignarlegt virki sem líkist einna helst kastala. Að mínu mati gerir það Salzburg að því augnakonfekti sem borgin er.

Eins og flestir ættu að vita var tónskáldið Mozart héðan. Nöfn á hinum ýmsu stöðum hér í borginni tengjast honum á einn eða annan hátt (þess má geta að húsið sem ég bý í heitir Mozart Studentenheim.) Það mun allavega ekki fara fram hjá neinum að kappinn eyddi ævi sinni hér að mestum hluta. Svo má eiginlega segja að Mozartkúlurnar séu ákveðið kennileiti þar sem þær prýða glugga annarrar hverrar búðar hér í bænum.

Að lokum er það svo söngleikurinn Söngvaseiður eða The Sound of music sem lokkar fólk allsstaðar úr heiminum að.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Salzburg er mjög lítil borg með aðeins 146 þúsund manns. Ég held að það sé búið að ljóstra upp um flest allar gersemarnar sem leynast hérna. Sjálfri finnst mér æðislegt að komast rétt út fyrir borgina og njóta þess sem leynist þar. Umhverfið allt í kring er ólýsanlega fallegt en þegar þú ert laus við háar byggingar og mikinn gróður er ýmislegt að sjá.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Ég er svona að fikra mig áfram í þessum málum og reyna að prufa mikið nýtt. Eftir nokkra mánuði mun ég sennilega getað svarað þessari spurningu betur en þó hef ég ýmislegt að velja úr.

Augustiner Braustubl er virkilega skemmtilegur veitingastaður sem er einnig einskonar bjórkjallari, fyrir þá allra þyrstustu. Staðurinn er eins mikið austurrískur og hægt er að hugsa sér, bjórinn er drukkinn úr risa stórum könnum og með honum er schnitzelinu skolað niður. Það skiptir engu máli hvaða dagur er, húsið (sem er virkilega rúmgott) er alltaf troðfullt og nóg af drykkjarföngum á borðum sama hvað klukkunni líður. Allir sem eiga leið sína hingað til Salzburg ættu að taka frá eina kvöldstund fyrir þessa skemmtilegu upplifun.

Að setjast niður og fá mér gott kaffi er brýn nauðsyn á hverjum degi fyrir mig svo ég er búin að vera dugleg að prófa ný kaffihús. Það kom mér virkilega á óvart hversu gott kaffið er hérna en ég hef ekki orðið fyrir miklum vonbrigðum ennþá. Ef ég hugsa eingöngu um gæðin á kaffinu er lítill krúttlegur kaffibás meðfram ánni með algjöru gæðakaffi en þar kem ég við á hverjum degi á leiðinni í skólann og fæ mér einn take away. Ef umhverfið á staðnum er aftur á móti tekið með inn í myndina er fullkomið að setjast á góðviðrisdegi upp á þak á nýjustu byggingu háskólans og njóta dásamlegs útsýnis mit ein Kaffee und ein stuck Kuchen. Í gær átti ég til að mynda fullkominn dag þar en núna er kominn örlítill snjór í fjöllin, svo ég horfi þangað læt mig dreyma um að renna mér niður brekkurnar.

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Ég er mjög góð í að segja servus, auf wiedersehen og PROST en annars get ég nú ekki sagt að ég sé mesti þýskusnillingurinn, þó ég geti gert mig skiljanlega á mjög einföldu máli. Ef einstaklingurinn sem ég á í samræðum við talar hægt og skýrt get ég einnig skilið samhengið ef við getum orðað það þannig. Annars er námið mitt allt á ensku og flestir sem ég hef kynnst tjá sig einnig á henni. Mér finnst gott að nýta tækifærið til að bæta enskuna til muna þar sem ég stefni á áframhaldandi nám erlendis og þá er nauðsynlegt að hafa orðaforðann hundrað prósent. Einn daginn mun ég samt sem áður taka þýskuna fyrir af alvöru, stefni á það sem einskonar langtímamarkmið að tala hana reiprennandi.

– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir einhverju svakalegu sjokki. Auðvitað eru hlutirnir ekki eins og þeir eru á Íslandi en þó var ekkert sem ég kippti mér sérstaklega upp við.
Ef ég ætti að nefna eitthvað eru það leyfilegar reykingar innandyra á öllum kaffihúsum og veitingastöðum. Mér skilst að um áramót eigi þó að banna allt slíkt. Ég fagna því þar sem ég þarf að borga 2 evrur fyrir hvert skipti sem ég nota þvottavélina og það er nánast á hverjum degi ef ég sest einhverstaðar inn.

– Hvað einkennir heimamenn?
Ég er ekki ennþá búin að kynnast heimamönnum neitt rosalega vel fyrir utan létt spjall við samnemendur og kennara. Eina reynslan eru samskipti í búðum eða þegar ég skelli mér á veitingastaði eða kaffihús.
Það sem ég upplifi einna helst í fari þeirra er mikil formfesta á hlutunum og þeir halda í gamlar hefðir. Þeir eru kurteisir en þó ekki svo mikið til í að tala ensku og eru ekkert sérstaklega góðir í henni heldur.

– Helstu kostir borgarinnar?
Hvað hún er lítil og auðvelt að komast leiðar sinnar. Það er einstaklega þægilegt að geta labbað nánast allt sem ég þarft að komast. Svo ef ég þarf að fara örlítið lengra er leigubíllinn ekki mjög dýr.

Að sjálfsögðu er stórbrotið umhverfið hér allt í kring og fallegar byggingar borgarinnar mikill kostur. Fyrstu dagana gat ég gleymt mér í að spá í þessu öllu og horfa í kringum mig.

nanna

Rigning í Salzburg

– Helstu gallar borgarinnar?
RIGNING, RIGNING! Það er ekkert leiðinlegra en að vakna peppaður í daginn og nei ekki bara rigning, heldur MÍGANDI rigning. Gleymdi einhver að láta mig vita að Salzburg er eitt mesta rigningarbæli Evrópu??? Kalt og bjart er mun betri kostur að mínu mati.. en nóg af neikvæðni.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Það fer eiginlega allt eftir aðstæðum og hvað framtíðin mun bera í skauti sér. Skulum bara orða það þannig að ég er opin fyrir öllu. Ég á mér svona krúttlegan lítinn draum um að setjast að einhverstaðar í sveitunum hér í Austurríki og reka gistiheimili eða eitthvað í þá áttina.

Ég er samt svakalegur Akureyringur í mér og á erfitt með að halda mér frá þeim stað sem og fjölskyldunni sem býr þar.
Ef ég myndi setjast að eimhversstaðar erlendis væri Salzburg eða Austurríki yfir höfuð allavega mjög ofarlega á listanum.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó