Borgin mín – Tókýó

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við kynnumst borgum víðsvegar í heiminum og Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Í þessari viku segir Asra Rán Björt okkur frá Tókýó í Japan þar sem hún er í háskólanámi. 

Tókýó

Tókýó

Tókýó er með mögnuðustu borgum sem ég hef nokkurn tímann verið í. Þegar ég kynntist Tókýó fyrst, árið 2014 var ekki aftur snúið. Ég dvaldi í Tókýó í sex mánuði með móður minni. Við ferðuðumst um landið og kynntumst menningunni, ég kolféll fyrir landinu, lifnaðarháttum heimamanna og lista- og bókmenntasögu landsins. Þegar við fórum aftur heim, kláraði ég síðustu önnina mína við Menntaskólanum á Akureyri og eftir útskrift sótti ég um háskólanám hjá Waseda University, einum besta háskóla í Japan. Í dag bý ég hér. Stunda fullt nám við fyrrnefndan háskóla og lifi drauminum sem ég átti mér frá því ég kom hingað.

Asra Rán

Asra Rán Björt

Ég bý í norðurhluta Tókýó, í lítilli studíóíbúð sem ég var ótrúlega heppin að finna. Það er mjög erfitt fyrir útlendinga að finna sér íbúðir í Tókýó, það er oft litið á okkur svona eins og… gæludýr? Requirements — No foreigners. Svo er auðvitað leigan nokkuð há hér, þó svo að ég leigi ódýrara heldur en flestir vinir mínir í Reykjavík, sem er háskammarlegt fyrir Íslenska ríkisstjórn með allt okkar land og rými. Tókýó er gríðarlega stór borg og fólksfjöldinn er himinhár og því er mikið hugsað um rými, og hvernig skal best spara það. Í raun og veru er margt svolítið svoleiðis í Tókýó, en til að vera nákvæm þá búa 37 milljónir manns á höfuðborgarsvæðinu, svo það er nauðsynlegt að huga að fólkinu í kring um sig. Þar af leiðandi gengur allt voðalega smurt fyrir sig, fólk gengur á sínum vegarhelming, sér um sitt eigið rusl, bíður í röðum og ruðningur er ekki til hér. Hér eru öll samskipti byggð á gagnkvæmri virðingu – virðingu fyrir náunganum sem og umhverfinu og sjálfum sér. Japanar beygja sig og hneigja í tíma og ótíma, sýna auðmýkt, virða þitt persónulega rými og vilja einungis sátt og samlyndi. Ég hef persónulega lært mjög mikið af því að búa í samfélagi sem slíku, ruddalegi Íslendingurinn, sem felst innra með mörgum okkar, minnkar og minnkar í mínu brjósti, en ég fór ekki að auðkenna hann fyrr en ég fór að búa hér.

Hér eru öll samskipti byggð á gagnkvæmri virðingu - virðingu fyrir náunganum sem og umhverfinu og sjálfum sér.

Hér eru öll samskipti byggð á gagnkvæmri virðingu – virðingu fyrir náunganum sem og umhverfinu og sjálfum sér.

Mér finnst mjög gott að búa í Tókýó ekki bara vegna þess hvernig andinn er frábrugðinn öðrum stórborgum, þá sérstaklega í Evrópu, heldur líka hverskonar lífi er hægt að lifa hér. Í stórborg sem þessari er alltaf eitthvað nýtt hægt að finna; nýjar fallegar bókabúðir, kaffihús, fólk eða viðburðir og hvað þá innan listageirans, myndlistasýningar, tónleikar, gjörningar o.s.frv. Ég reyni að vera dugleg að brjóta upp vikuna mína með því að fara á slíka viðburði eða einfaldlega fara út úr mínum hluta borgarinnar og njóta fjölbreytileikans. Sem er einn af þeim stóru faktorum af hverju ég er svo hrifin af borginni, fjölbreytileikinn er endalaus. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að vera hvít, álitin ljóshærð, innan asísks þjóðfélags, ég sker alltaf úr. Það tók mig svolítinn tíma að sætta mig við að ég mun ávalt vera gestur en ekki heimamaður. Japanar eiga það til að koma öðruvísi fram við útlendinga, ekki endilega á neikvæðan hátt, en samt, öðruvísi. Ég veit ekki hve oft ég hef verið stoppuð úti á götu og beðin um að taka mynd með ókunnugu fólki. Á hinn boginn er Tókýó, hægt og rólega að verða meira alþjóðleg og margt að breytast í ljósi þess að Ólympíuleikarnir verða haldnir hér árið 2020.

Höfuðborgarsvæði Tókýó er það stærsta í heimi

Höfuðborgarsvæði Tókýó er það stærsta í heimi

Japanska er ólík öllum öðrum tungumálum sem ég hef nokkurn tímann lært. Ég fann strax fyrir því hvernig mitt daglega líf breyttist eftir að ég lærði svolítið japönsku, en Japanar tala ekki mikið ensku. Til að segja aðeins frá japönsku tungumáli þá eru þrjú “stafróf” notuð í tungumálinu, Hiragana, Katakana og Kanji. Hiragana og Katakana eru hljóðstafróf og Kanji eru kínversk tákn. Þessi svokölluðu stafróf, samlagast hins vegar öll í einni setningu, því er heldur erfitt að ná tökum á lestri – sérstaklega því það er nauðsynlegt að þekkja a.m.k. tvö til þrjú þúsund kanji tákn til þess að geta lesið almennan texta. Ég skrifa og les hiragana og katakana án erfiðleika en er rétt nýbyrjuð að læra kanji. Þetta er mikil upplifun og ferðalag fyrir mig. Enn er langt í að ég útskrifist svo hvað tekur við eftir það er óljóst, hvort sem ég muni fara eitthvað annað eða setjast hér að til æviloka, veit ég ekki. Aftur á móti veit ég að hingað mun ég allaf koma- aftur og aftur, og ég hvet alla til þess að heimsækja Japan einhvern tímann. Þetta er stórkostlegur staður, sem er einstaklega misskilinn innan okkar vestræna heims. Tókýó er ekki bara anime, manga og tækniundur, heldur svo margt margt og miklu meira.

Staðir sem ég mæli með að heimsækja í Tókýó:
Shinjuku,
Shibuya,
Harajuku,
Asakusa,
Akihabara
Daikan-yama
Kichijoji
Shimokitazawa
Ueno

Til að skoða fleiri borgir sem fjallað er um ýttu hér.

UMMÆLI