Brautskráning kandídata úr tölvunarfræði HR við HA

Í gær fór fram brautskráning tíu kandídata úr tölvunarfræði HR við HA. Þetta er í fyrsta sinn sem nemendur ljúka þriggja ára bakkalárgráðu í samstarfi HR og HA um nám í tölvunarfræði.

Haustið 2015 hófst samstarf HA og HR um að bjóða upp á tölvunarfræðinám við Háskólann á Akureyri. Sata, samtök atvinnurekanda á Akureyri, styrktu námið en fyrst um sinn var í boði tveggja ára diplómanám. Í fyrra var í fyrsta skipti boðið upp á að klára BSc gráðu við HA. Nú stunda tæplega 40 manns nám í tölvunarfræði við HA. Námsefni og fyrirlestrar koma frá HR en dæmatímar og hópverkefni fara fram undir handleiðslu kennara við HA.

„Það er ómetanlegt að geta boðið nemendum af svæðinu aðgang að tölvunarfræðinámi. Viðskiptalífið nýtur góðs af því og kallar á meira í þessum dúr,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

„Í fyrra voru útskrifaðir tveir nemendur með diplóma en nú brautskrást 10 nemendur með BSc gráðu, flestir eftir þriggja ára nám í tölvunarfræði, nokkrir með annað háskólanám fyrir sem var metið inn og einn nemandi með viðskiptafræði sem aukagrein. Við erum ánægð með þessa blöndu enda er tölvunarfræði þverfagleg grein sem á heima í öllum geirum. Það er flott að fá fólk með mismunandi bakgrunn inn í námið því það stuðlar að meiri fjölbreytni í útskrifuðum nemendum“, segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri í tölvunarfræði við HA.

25 sóttu um nám í tölvunarfræði HR við HA á komandi námsári.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó