Breytingar á matseðlum í leik- og grunnskólum samþykktar

Breytingar á matseðlum í leik- og grunnskólum samþykktar

Úttekt á matseðlum í leik – og grunnskólum Akureyrar var gerð síðastliðið vor og voru niðurstöðurnar kynntar Fræðsluráði í lok ágúst. Á fundi fræðsluráðs Akureyarbæjar 6. september síðastliðinn var samþykkt samhljóða breyting á fyrirkomulagi matseðla í leik- og grunnskólum bæjarins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Sjá einnig: Úttekt á matseðlum í skólum Akureyrarbæjar: „Heilt yfir eru núverandi matseðlar svolítið barn síns tíma“

Í byrjun maí 2021 barst Sýni ehf. beiðni frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar um að reikna út næringagildi skólamáltíða hjá Akureyrarbæ. Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir fræðsluráði 23. ágúst síðastliðinn. Með hliðsjón af niðurstöðum úttektarinnar og að teknu tilliti til hugmynda matráða sem komið hafa fram á fundum með þeim síðustu tvö árin, sendi leikskólateymi fræðslusviðs erindi til fræðsluráðs um breytingar á fyrirkomulagi matseðla sem nú hefur verið samþykkt.

Breytingarnar fela m.a. í sér að matseðlarnir eru endurteknir eftir fjórar vikur í stað sjö vikna áður. Með því eykst sveigjanleiki matráða til að setja saman matseðil fyrir sinn skóla og nota þær uppskriftir sem þeir vita að falla best í kramið hjá nemendahópnum. Þannig er til dæmis fiskur á matseðlinum í viku eitt en matráðurinn ákveður sjálfur hvaða fiskur það er og hvernig hann er matreiddur. Þetta gerir það að verkum að ekki er sama útfærslan á matnum í öllum skólum.

Samkvæmt tillögum að úrbótum úr samantekt skýrslu frá Sýni þarf að auka magn grænmetis og salats, tryggja að feitur fiskur sé í boði a.m.k. tvisvar í mánuði, auka hlutfall trefjaríkra matvæla og minnka hlut matvæla með mettaða fitu.

Þær uppskriftir sem til eru í sjö vikna módelinu verða áfram í notkun og óskað hefur verið eftir að starfsmaður frá Sýni ehf. setji saman nýjar uppskriftir af grænmetis- og kjúklingaréttum, þrjár af hvoru. Eftir sem áður þarf að fara eftir viðmiðum Embættis landlæknis, fjárhagsáætlun hvers skóla og rammasamningum. Nýtt fyrirkomulag mun taka í gildi í kringum næstu mánaðamót.

Lestu samantekt vegna úttektar á skólamáltíðum og tillögur að úrbótum með því að smella hér.

UMMÆLI