Gæludýr.is

Breyttu um lífstíl!

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Og nei, þetta er ekki pistill um mataræði og hreyfingu en eflaust margir sem byrja að hugsa um það. Við höfum flest tekið eftir ýktum lífstílsbreytingum hjá fólki á síðustu árum þar sem lífstíllinn er tekinn í gegn. Þá er farið á sérstakt námskeið í ræktinni. Aðhyllst sérstakan matarkúr. Gerst jógakennarar og stundað jóga grimmt. Byrjað í kraftlyftingum. Og lengi mætti nú telja. Allt þetta höfum við verið að gera vegna ákveðinnar uppgötvunar. Við höfum nefninlega áttað okkur á að við þurfum að passa mataræði, hreyfingu og svefn ef við viljum verða gömul og gráhærð. En við gleymdum einu mikilvægu atriði í þessum pælingum okkar; HVAR við ætlum að verða gömul og grá. Þar af leiðandi höfum við því ekki verið mjög meðvituð um að hugsa vel um jörðina okkar þó að auðvitað hafi verið vakning í þeim málum á síðustu árum.

Við fáum þetta hins vegar allt í bakið. Hverju skiptir að vera heilsuhraust ef óstöðugt veðurfar hindrar matjurtaræktun? Þó að við getum hlaupið maraþon og lyft lóðum ráðum við ekki við náttúruhamfarir. Og ekki getum við klifið fjöll eða hjólað um í menguðu lofti. Heilbrigður lífstíll er ekki bara matur og hreyfing heldur er sjálfbærni einn af grunnþáttunum.

Við ættum því öll að temja okkur umhverfisvænan lífstíl. Lífstíl sem minnkar vistsporið okkar. Að minnsta kosti ef við viljum vera heilbrigð, þá þurfum við heilbrigt umhverfi. En hvað felst þá í umhverfisvænum lífstíl? Hvað þarf að gera? Það eru ótal margir litlir hlutir sem geta skipt miklu máli í stóra samhenginu. Það þarf bara að vera meðvitaður um þá og hafa vilja til að framkvæma þá. En það er alltaf erfitt að breyta um vana. Alveg eins og það var erfitt að skipta sjónvarpsglápi út fyrir ræktartíma. Þú getur samt hugsað að þú sért vanur/vön svona lífstílsbreytingum og þar af leiðandi verður þetta ekkert mál!

Fyrir ykkur sem hafa áhuga að leggja ykkar af mörkum til að búa í betri heimi eru hér nokkur ráð:

  • takmarka keyrslu
  • takmarka flugferðir, þá sérstaklega stuttar flugferðir og millilendingar
  • stilla neyslu sinni í hóf
  • kaupa notað
  • forðast að henda mat
  • takmarka notkun á einnota hlutum
  • endurvinna pappír, plast, ál, fernur, vax, gler, batterí, raftæki
  • fara frekar í sturtu en bað. Ef þú elskar að liggja í heitu vatni, skelltu þér í sund í heita pottinn
  • velja vörur úr umhverfisvænum umbúðum eða þær sem eru ekki með óþarfa miklar umbúðir
  • velja umhverfivænar vörur
  • borða grænmetisrétt einu sinni í viku
  • slökkva á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun
  • hengja þvott á snúruna í stað þess að nota þurrkarann þegar veður leyfir
  • planta trjám til að auka ljóstillífun
  • vera með moltu
  • sameina bílaferðir
  • slökkva ljós þegar þau eru ekki í notkun eða óþörf
  • ekki henda gömlum hlutum heldur selja/gefa
  • sleppt röri á veitingastöðum, tekið bara eina servíettu og sv.frv.
  • nota nestisbox í staðinn fyrir litla plastpoka/álpappír
  • óska eftir því að fá ekki ruslpóst
  • rækta eigin grænmeti, kryddjurtir, kartöflur

Að lokum langar mig að benda á heimasíðuna co2.is en þar er óskað eftir ráðum almennings gegn loftmengun. Það er frábært að leyfa almenningi að hafa áhrif og eigum við að grípa tækifæri sem þessi. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og við ættum ekki að bíða þangað til það er orðið of seint.

*the greatest threat to our planet is the belief that someone else will save it*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó