Prenthaus

Byggðastefna  heilbrigðis

Byggðastefna heilbrigðis

Margrét Pétursdóttir skrifar

Árið 2019 fór starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytis í það hlutverk að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni. Aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu vegna meðgöngu og fæðingar yrði skilgreint fyrir hvern landshluta auk þess sem öryggisþjónusta verði tryggð. Starfshópurinn hóf störf haustið 2019 og átti að skila niðurstöðum fyrir næstu áramót á eftir.

Því miður er sú niðurstaða ekki komin og það frumvarp sem sett var fram bíður enn afgreiðslu.

Ég held að flestir íbúar þessa lands hafi heyrt fréttir og það fleiri en eina um konu komna að fæðingu í sjúkrabíl föstum á heiði í aftaka veðri. Þetta getur ekki skilgreinst sem öryggi fæðandi kvenna. Það hefur einnig komið fram að kvíði barnshafandi kvenna á meðgöngu sem er ekki óalgengur er þar að auki meiri hjá konum á landsbyggðinni.

Kona sem fengið hefur umsjón ljósmóður á sínu heimasvæði og er nógu hress til til að eiga heima eða á heilsugæslu með ljósmóður og lækni er fyrsta skref í fæðingarþjónustu. Þá verður að vera til staðar á heimasvæði föst staða ljósmóður. Fæðingar utan sjúkrahúss eru í dag mun öruggari en var áður og hefur það sýnt sig að hægt er að sinna þunguðum konum með fjarbúnaði t.d. þeim sem fá meðgöngusykursýki. Hér hefur hinsvegar byggðastefna nýfrjálshyggjunnar verið á þann veg að bjóða einungis uppá  sjúkrabíl eða sjúkrahús langt frá heimabyggð.

Það hefði mátt spýta í lófana til að klára þetta og önnur verkefni á kjörtímabilinu sem er að ljúka og svo ég tali ekki um löngu fyrr þar sem krafan um fæðingarþjónustu í heimabyggð er margra áratuga gömul.

En þessi sveltistefna í heilbrigðismálum ætti ekki að koma okkur á óvart. Sjálfstæðisflokkurinn sem verið hefur meira og minna í ríkisstjórn nýfrjálshyggjuáranna og haft völdin í fjármálunum, hefur það skýrt í sinni stefnu að taka sem mest úr ríkisrekstri og setja í einkarekstur. Aðferðafræðin við þessa breytingu er að svelta heilbrigðismálin yfir til einkageirans.

Nú er mikið talað um Landsspítalann og vanda hans og ekki í fyrsta sinn en minna fer fyrir umræðum um rétt landsbyggðarinnar í heilbrigðismálunum.

Fjórðungssjúkrahús og heilsugæslur hafa fengið sinn skerf af svelti sem kemur meðal annars fram í skorti á heimilislæknum,manneklu og álagi.

Svarið við vanda landsbyggðarinnar er ekki einkarekstur. Svarið er að þau sem ekki búa innan stærstu kjarnanna fái sama jöfnuð og þau sem þar búa. Að peningum sé varið í meira mæli til landsbyggðarinnar. Að virkja heilsugæslurnar betur með fjármunum og mannafla og styrkja það verkefni með nýju íbúðahúsnæði og námslaunum til þeirra sem vilja mennta sig frekar ásamt því að gera nettengingar og rafmagn aðgengilegra og passa að allsstaðar verði gjaldfrjálsar samgöngur, það er sósíalísk byggðastefna. Sú byggðastefna sem við í Sósíalistaflokknum viljum sjá og vinna að á næsta kjörtímabili.

Kjósið burt nýfrjálshyggju hægriflokkanna. Skilið ekki auðu heldur rauðu þann 25.september.

Margrét Pétursdóttir skipar 2.sæti á lista Norð-austur kjördæmis fyrir Sósíalistaflokkinn.

UMMÆLI