Churchill vildi fá upplýsingar um Melgerðismela

Churchill vildi fá upplýsingar um Melgerðismela

Sama dag og breskir hermenn gengu á land í Reykjavík í maí 1940 tók Winston Churchill við embætti forsætisráðherra Bretlands. Rúmu ári síðar heimsótti hann bresku setuliðsmennina þegar hann kom til Íslands í stutta heimsókn. Aðdragandinn að heimsókninni var fundur sem Churchill átti í ágústmánuði 1941 með Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta um borð í herskipi á ónefndum stað á Atlantshafi.

Eftir fundinn með Roosevelt hélt Churchill áleiðis til Íslands. Hann steig á land í Reykjavík þann 16. ágúst. Eins og öllum er kunnugt flutti Churchill ávarp til íslensku þjóðarinnar af svölum Alþingishússins. Eftir það var hann viðstaddur hersýningu á vegum bandarískra, breskra og norskra herflokka.

Setuliðsmaður að nafni C. R. Wampach var staddur í Reykjavík þegar Churchill bar að garði. Wampach rifjaði upp heimsókn forsætisráðherrans í endurminningum sínum árið 2004. Þar lýsir hann m.a. hvernig Churchill kom inn á skrifstofu hersins í fylgd háttsettra embættismanna og herforingja, púandi stóran vindil. Hann staldraði stutt við en eitt var það öðru fremur sem fangaði athygli breska forsætisráðherrans inni á skrifstofunni.

Hann ræddi við starfsmenn en varð svo starsýnt á risastóru töfluna á skrifstofunni þar sem fylgjast mátti með gangi mála í framkvæmdum við flugvelli landsins – þessi tafla var á mína ábyrgð – barnið mitt. Hann sýndi þeim stöðum á kortinu sérstakan áhuga sem merktir voru með lituðum nálum. Allt í einu bendir hann á töfluna og segir: „Dill, hver er staðan á flugvellinum á Melgerðismelum (Melgerdi airfield)?“

Dill hafði ekki svör á reiðum höndum fyrir forsætisráðherrann og vísaði því á næsta embættismann. Sá gerði slíkt hið sama. Þannig gekk þetta í einhvern tíma þar til Wampach var fenginn til að upplýsa Churchill um stöðuna á Melgerðismelum.

Ég var mjög stressaður þegar ég gekk upp að Churchill. „Number 2 runway excavated sir, number 2 ready for concreting, number 3 fully operational.“ Churchill brosti og lagði hönd sína á öxlina mína. „Þakka þér undirliðþjálfi.“ Síðan sagði hann með sinni rámu rödd: „Guði sé lof að einhver veit hvernig ástandið er á Íslandi.“

Heimild:

Grenndargralið

Hér má sjá nokkra muni úr fórum setuliðsmanna sem Varðveislumenn minjanna fundu á Melgerðismelum fyrr í sumar.
Sambíó

UMMÆLI