Dæmdi úrslitaleikinn meiddur og veikur

Dæmdi úrslitaleikinn meiddur og veikur

Fyrsta Evrópumót kvennalandsliða í handknattleik fór fram árið 1994 í Þýskalandi. Danir stóðu uppi sem sigurvegarar. Evrópumót kvenna, hið fjórtánda röðinni stendur nú sem hæst í Danmörku. Mótinu lýkur 20. desember þegar tvö bestu liðin á mótinu munu berjast um gullið. Norðmenn mæta Dönum í undanúrslitum á morgun, 18. desember. Í hinum undanúrslitaleiknum etja Frakkar kappi við Króata.

Um þessar mundir eru nákvæmlega 24 ár síðan Evrópumót kvenna í handbolta fór fram öðru sinni. Danir og Norðmenn spiluðu til úrslita um Evrópumeistaratitilinn þann 15. desember árið 1996. Danir hrósuðu sigri annað Evrópumótið í röð og að þessu sinni á heimavelli. Dómarar í leiknum voru þeir Stefán Arnaldsson og Rögnvald Erlingsson.

Meira en áratugur er liðinn frá því að Stefán lagði flautuna á hilluna eftir langan og glæsilegan feril. Sjálfsagt á hið sama við um íþróttadómara og íþróttamenn sem leggja skóna á hilluna. Lífið heldur áfram að hverfast um leikinn í einhverri mynd, þótt úr fjarlægð sé.

Nú þegar Danir og Norðmenn undirbúa sig fyrir rimmuna á morgun er við hæfi að fá dómarann sem dæmdi úrslitaleikinn fyrir 24 árum síðan til að spá í spilin. Grenndargralið hafði upp á Stefáni Arnaldssyni hjá Útfararþjónustu Kirkjugarða Akureyrar þar sem hann starfar. Þrátt fyrir annríki í aðdraganda jóla gaf Stefán sér tíma til að rifja upp leikinn eftirminnilega í desember árið 1996. Þá lék Grenndargralinu forvitni á að vita hvaða lið Stefán telji að standi uppi sem sigurvegari á sunnudaginn.

„Þessi leikur var auðvitað merkilegur í flesta staði. Fyrsti úrslitaleikur hjá mér á stórmóti en ég tók milliríkjadómaraprófið aðeins nokkrum árum fyrr eða 1989. Þarna var um nágrannaslag að ræða, tvö frábær lið með mikla snillinga innanborðs. Heiðurinn var því mikill að fá að dæma fyrir fullu húsi á heimavelli Dana. Auðvitað var pressan mikil að standa sig sem ég tel að við félagarnir höfum gert.

Þessi leikur var einnig mjög merkilegur vegna þess að enginn leikmaður var rekinn útaf í tvær mínútur. Það þótti og þykir væntanlega enn mjög undarlegt. Við náðum að leggja leikinn þannig upp, leyfa leikmönnum að takast hæfilega á og af heiðarleika, þannig að við værum ekki í aðalhlutverki. Í góðri samvinnu við leikmenn tókst það. Jafnvel Anja Andersen leikmaður Dana var mjög sátt en hún kom sér ætíð í vandræði gagnvart dómurum á þessum tíma.

Í þriðja lagi var svolítið merkilegt að ég dæmdi þennan leik meiddur og veikur. Ég segi frá því núna. Ég hafði fengið brunasár á vinstra hné stuttu fyrir þennan leik þegar við dómararnir vorum í knattspyrnu innanhúss. Ég fékk sýkingu og þurfti að leita á sjúkrahús kvöldið fyrir leikinn. Greiningin var blóðeitrun í fæti! Ég fékk aðhlynningu og hitalækkandi lyf. Ég tók mikla áhættu að mæta svona til leiks, kæmist varla upp með það í nútímanum!  Hver vill missa af úrslitaleik sem þessum? En þetta fór mjög vel, ég get sagt það svona eftir á. Um 5.000 áhorfendur voru líka ótrúlegir og mikil upplifun í leik sem Danir unnu 25 – 23 eftir að staðan í leikhléi var 10 – 10.

Ég held að Frakkland og Noregur muni leika um gullið í þetta sinn. Þetta eru sterkustu liðin núna, Noregur það besta sem gerir mikið tilkall til sigurs á mótinu. Það eru þó ekki alltaf bestu liðin sem sigra að lokum. Það er svo margt sem hefur áhrif og allt þarf að ganga upp. En kannski er það bara óskhyggja að Noregur vinni….sjáum til.“

Dómaraferill Stefáns Arnaldssonar spannaði rúma þrjá áratugi með vel á þriðja þúsund leiki. Síðasti leikur Stefáns sem milliríkjadómari var úrslitaleikur í Evrópukeppni félagsliða kvenna árið 2006.

Meðfylgjandi mynd (skjáskot af Youtube) er tekin við upphaf úrslitaleiksins árið 1996. Stefán er til vinstri á myndinni, honum á vinstri hönd er Rögnvald Erlingsson.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó